133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

279. mál
[15:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt mál að ræða þetta betur við iðnaðarráðherra í næsta dagskrármáli, þá höfum við rýmri ræðutíma en hér í andsvörum, en ég var litlu nær af þessu svari, satt best að segja. Ég sé ekki alveg rökin fyrir þessu, átta mig ekki alveg á því af hverju þessi leið er farin. Af hverju má Byggðasjóður ekki vera lánasjóður áfram, grunnlánasjóður með skýrt skilgreint byggðahlutverk? Og talandi um bankakerfið og að vísa á það þá skyldi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og yfirmaður bankamála tala varlega. Voru það ekki bankarnir sem lögðu af stað með húsnæðislánin sín þannig að þau áttu ekki að gilda úti á landi? Voru ekki ákveðin skilaboð fólgin í þeim? Þeir voru að vísu lamdir til baka með það en ætli hugarfarið hafi mikið breyst?

Það þekkja allir sem reyna að standa í nýsköpun atvinnulífs úti um landið hvers konar reginbarningur það er að fá bréfin svo mikið sem opnuð ef póstnúmerið er eitthvert annað en hundrað og eitthvað. Það er bara þannig, þetta vita allir. Þess vegna spyr maður sig að því: Eru menn gegn betri vitund eða eru menn svona illa upplýstir að ýta niður þessum veikburða tilburðum sem uppi hafa verið til að framfylgja einhverri virkri byggðastefnu á Íslandi?

Ég hef alveg gríðarlegar efasemdir um að við getum spornað eitthvað við byggðaröskun, hvað þá náð byggðajafnvægi í landinu með miklu minni og máttlausari tækjum en löndin í kringum okkur hafa, þar á meðal styrkveitingum. Hvernig er þetta innan Evrópusambandsins? Er ekki hið viðurkennda regluverk Evrópusambandsins í byggðamálum þannig að á skilgreindum þróunarsvæðum má veita margs konar styrki og ívilnanir eða niðurfellingar? Eru ekki stofnstyrkir í gangi, allt upp í 30–40% af grunnfjárfestingum í ýmiss konar atvinnuuppbyggingu, þegar kemur út á hin viðurkenndu þróunarsvæði í byggðamálum? En hér uppi á Íslandi þar sem byggðaröskun hefur verið meiri en annars staðar í Evrópu, þar sem þó hefur ekki brostið á styrjöld, (Forseti hringir.) á að hafa minni og fátæklegri tæki í höndum stjórnvalda í þessum efnum en eiginlega í nokkru öðru landi.