133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:25]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Skattastefna ríkisstjórnarinnar er alþekkt. Í forgang var sett að lækka hátekjuskattinn og afnema hann síðan í áföngum. Þess vegna hefur það verið svo að þeir sem hæstar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu hafa hagnast mest á skattbreytingu ríkisstjórnarinnar.

Þegar skoðaðar eru tölur frá fjármálaráðuneytinu um hvernig skattbyrðin dreifist á lágtekjufólk kemur í ljós að þeir sem eru með tekjur á 1,5–2 millj. kr. á ári eru 23.680 talsins. Þeir greiddu skatta af þeim upphæðum fyrir áramót. Þessi fjöldi lækkaði í 19.700 við hækkun á persónuafslætti um áramótin upp í 90 þús. kr. skattleysismörk til viðbótar. Ef farið hefði verið að tillögum stjórnarandstöðunnar um hækkun á persónuafslætti hefði í þeim hópi fækkað um 5.000, hann hefði farið niður í 15.000 manns. Það hefði munað um það, en þetta er ekki stefnan sem ríkisstjórnin hefur viljað fara. Hún hefur farið þá leið að hygla þeim sem hafa mestar tekjurnar og svo talar fjármálaráðherrann í meðaltölum. Þeir sem búa við stefnu ríkisstjórnarinnar eiga að lifa á meðaltölum. Þetta er þvílík óvirðing við láglaunafólk, eldri borgara og öryrkja að engu tali tekur hvernig ríkisstjórnin talar um skattamál.

Hér er hafin umræða sem við getum kallað í stjórnarandstöðunni tveir fyrir einn, þ.e. þegar Framsóknarflokkurinn hefur umræðuna og ráðherrarnir bæta svo um betur og tala um hvað þetta sé ofboðslega mikið góðæri. Ég held að menn ættu aðeins að hugsa betur hvaða stefnu þeir reka í skattamálum og hverjar rauntekjurnar eru fyrir láglaunahópana í landinu, hæstv. forseti.