135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

málefni lesblindra.

70. mál
[13:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin, sérstaklega við fyrri liðnum. Það er greinilegt að hún hefur kynnt sér þessi mál, er meðvituð um þau og sinnir þeim.

Hvað varðar seinni fyrirspurnina ítreka ég að ég tel algjörlega tvímælalaust að ríkið eða skólakerfið eigi að standa straum af þessari lesblinduleiðréttingu, hvort sem hún fer fram innan eða utan skóla. Ég hef nefnt markmiðslýsingar bæði í grunnskóla- og framhaldsskólalögum og þar fyrir utan mælir stjórnarskráin fyrir um að allir skuli njóta jafnræðis burt séð frá kynferði, litarhætti og stöðu að öðru leyti. Þetta er það stór hópur barna sem fer á mis við þessa þekkingu. Bara greiningin í dag kostar milli 25 og 40 þús. og sjálf leiðréttingin um eða yfir 200 þús. Auðvitað leggur maður slíkt ekki á sveitarfélög nema því fylgi tekjustofnar. Stjórnarskráin er að mínu mati brotin á þessum börnum og þessu verður að kippa í liðinn sem fyrst.

Mér finnst til að mynda óviðeigandi þau viðbrögð sem birtust í fyrra að heimila lesblindum börnum að sleppa við lesskilningshluta prófa í íslensku í 4. og 7. bekk á síðasta ári. Það er flótti frá vandamálinu.

Ég ítreka það að í þessum börnum, lesblindu börnum, felst náðargáfa. Ef hún er virkjuð með leiðréttingunni erum við að skapa okkur fjársjóði mjög víða. Í listum, í tónlist allri og víðar. Það er talað um átta grundvallareiginleika í þessu sambandi. Ef þeir eru ekki eyðilagðir kemur fram greind yfir meðallagi og óvenjurík sköpunargáfa.