135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið til 2. umr. en tel nauðsynlegt að gera að umræðuefni nokkur atriði sem ég hnýt um í nefndaráliti félagsmálanefndar og breytingartillögum nefndarinnar.

Gríðarlega stór áfangi næst með frumvarpinu þó að ég hefði sjálf kosið að lengra hefði verið gengið í ýmsu tilliti. Ég nefni þar t.d. launamun kynjanna og hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um úrræði í þeim efnum. Við höfum lagt fram þingmál þess efnis að Jafnréttisstofa hafi stjórnvaldsúrræði en við teljum að það geti verið mjög áhrifamikið og skipt sköpum hvað það varðar að ná fram auknu launajafnrétti. Þær hugmyndir okkar ganga lengra en þær hugmyndir sem fjallað er um í frumvarpinu. Hér er þó engu að síður stigið það skref að tryggja að launamönnum sé ævinlega heimilt að gefa upp laun sín til þriðja aðila ef þeir kjósa svo. Ég hefði talið ákjósanlegra að það væri viðtekin venja hjá öllum atvinnufyrirtækjum að aflétta trúnaði af launaupplýsingum þannig að Jafnréttisstofa gæti farið þar inn og athugað hvort fyrirtæki fari að lögum í einu og öllu hvað það varðar.

Viljayfirlýsingar um að ná fram launajafnrétti kynjanna hafa ekki fært okkur þann árangur sem við mörg hefðum kosið, ekki fært okkur þann árangur sem nauðsynlegur er til þess að við getum staðhæft að hér ríki fullt jafnrétti kynjanna með tilliti til launa. Ég tel að róttækari aðgerðir í þessum efnum hefðu skilað betri árangri en það sem hér er lagt til en þetta eru engu að síður það áhrifamikil skref í rétta átt að ég sé ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.

Ég velti hins vegar fyrir mér nokkrum breytingartillögum frá félagsmálanefnd, t.d. þeirri breytingu sem lögð er til á skilgreiningu hugtaksins „bein mismunun“. Í orðskýringum í 2. gr. frumvarpsins, 1. tölulið, þar sem fjallað er um beina mismunun, segir, með leyfi forseta:

„Hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kyni sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að annað kynið fái viðurkennd mannréttindi og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði, geti notið þeirra eða fengið þeim framfylgt.“

Nefndin leggur til að þessum orðum verði fækkað allverulega og að „bein mismunun“ verði skilgreind með eftirfarandi setningu, eins og fram kemur á þskj. 536 með breytingartillögum nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.“

Ég hef efasemdir um að þessi breytingartillaga sé góð. Mér finnst orðanna hljóðan í frumvarpinu með þeim hætti að hún komi merkingunni betur til skila en hin nýja hugmynd nefndarinnar um þessa óhagstæðu meðferð.

Auðvitað er hægt að segja sem svo að ef það hefði verið eitt af ágreiningsefnunum í nefndinni, en eins og komið hefur fram í umræðunni hefur nefndarmenn greint á um ákveðna þætti, þá kann að vera að hér hafi verið um ákveðna málamiðlun að ræða varðandi þetta atriði og þá verður svo að vera. Ég er ekki eins sátt við tillögu nefndarinnar eins og ég var við skilgreininguna í frumvarpinu.

Mig langar einnig að gera hér að umræðuefni breytingartillöguna sem varðar 18. gr. Þar segir að nefndin geri ráð fyrir að breyting verði á 18. gr. þar sem orðið „aðgerðir“, sem gert er ráð fyrir að tryggi starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í ákveðnum greinum frumvarpsins, fari út og í staðinn komi: „gerð áætlun um hvernig þeim skuli náð.“ Þar er ég líka í vafa um að við séum að gera rétt. Ég sé ekki betur en að 2. mgr. 18. gr. verði hálfundarleg þarna þar sem 2. málsliður 18. gr. er svohljóðandi:

„Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr.“

Ég hefði haldið að hér þyrfti að standa orðið „aðgerðir“ en ekki að áætlunin um hvernig þeim skuli náð sé nægileg.

Síðan vil ég gera athugasemd við Jafnréttisráð sem kveðið er á um í 8. gr. frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi átta manna Jafnréttisráð. Breytingartillögur nefndarinnar gera ráð fyrir að þeim verði fjölgað í tíu. Ég átti orðastað við hv. formann nefndarinnar í andsvörum áðan þar sem fram kom í máli hv. þingmanns að hér væri um málamiðlunartillögu að ræða.

Mér þykir nokkuð undarlegt að þegar hávær krafa kemur upp í nefndinni um að ráðið verði fámennara en átta, skuli málamiðlunin vera sú að fjölgað sé um tvo. Málamiðlunin er því upp á við. (Gripið fram í.) Í sjálfu sér er það skondið þegar maður horfir á það þessum augum. Ef ágreiningur hefði verið um fjölda ráðsmanna hefði maður haldið að málamiðlunin væri niður á við, að þá hefði verið farið bil beggja í þessum efnum því að frumvarpið gerði ráð fyrir átta. Nei, mér segir svo hugur um að átökin innan nefndarinnar hafi verið um það hverjir sætu í ráðinu, hverjir ættu þar fulltrúa en ekki nákvæmlega um fjölda fulltrúanna.

Ég nefndi í andsvari mínu að ég væri ósátt við að fulltrúi Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, sem er ein af rannsóknastofnunum Háskóla Íslands, skyldi vera tekin út úr ráðinu með þeim rökum að fleiri háskólar starfi á þeim vettvangi og því verksviði. Hér var nefnd Rannsóknastofa um jafnrétti og vinnuvernd í Háskólanum á Bifröst.

Mig langar að upplýsa hv. þingheim um að flaggskip íslenskrar æðri menntunar, Háskóli Íslands, hefur um árabil rekið þessa öflugu rannsóknastofu undir félagsvísindadeild, rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Sú rannsóknastofa er óumdeild. Hún ber höfuð og herðar yfir annað rannsóknastarf sem fram fer í landinu. Rannsóknastarf í kvenna- og kynjafræðum hefur átt undir högg að sækja og þarf aukið brautargengi og aukinn stuðning stjórnvaldsins og löggjafans til að ná almennilega fótfestu. Ég hefði haldið að hér væri full ástæða til að setja fulltrúa frá flaggskipi rannsókna í kvenna- og kynjafræðum inn í ráðið eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég vil benda á að rannsóknastofan hefur mjög mikið samstarf við aðra aðila sem starfa á þessum vettvangi, eins og t.d. þá sem starfa fyrir Háskólann á Bifröst.

Háskólinn á Bifröst vinnur mjög merkilegt starf og það gerir Háskólinn í Reykjavík einnig. Þar eru aðilar sem komið hafa inn í umræðu og samstarf við Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Sú rannsóknastofa hefur því virkjað aðila annars staðar í fræðasamfélaginu, tekið þá inn á ráðstefnur og unnið verkefni í náinni samvinnu við þá. Ég tel því einsýnt að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum þurfi að vera til staðar í Jafnréttisráði. Ég lýsi því hér yfir að ég tel að full ástæða sé til að skoða það milli 2. og 3. umr. hvort ekki eigi að gera hér einhverja bragarbót á og hvort ekki sé hægt að leiðrétta — ég vil segja leiðrétta — þessi mistök til að tryggja að fræðasamfélagið, það fólk sem stundað hefur rannsóknir á sviðinu, eigi aðkomu að Jafnréttisráði. Ég tel það mjög mikilvægt og mun leggja mikla áherslu á það í starfinu sem fram undan er að því verði kippt í liðinn, að það verði leiðrétt.

Annað sem ég hafði orð á í andsvari við hv. þingmann varðandi Jafnréttisráð, hv. formann nefndarinnar, varðaði þá ákvörðun nefndarinnar að setja inn fulltrúa frá nýjum aðila sem ekki var í frumvarpinu. Þar er ég að tala um Félag um foreldrajafnrétti. Það er hagsmunafélag sem m.a. hefur lagt áherslu á að koma karlmönnum inn í umræðu um ákveðna þætti í jafnréttisumræðunni. Hér er um að ræða feður sem misst hafa forræðið yfir börnum sínum eða hafa ekki forræði yfir börnum sínum. Eðlilegt er að starfandi séu hagsmunafélög um málefni af þessu tagi. Eins og ég sagði áðan veit ég um að minnsta kosti tvö félög á landinu sem hafa þessi hagsmunamál og berjast fyrir þeim. Ég hefði viljað fá rök frá hv. formanni nefndarinnar um það hvers vegna eitt félag á þessum vettvangi er tekið fram yfir annað.

Ég vil jafnframt segja að ég er ekki sannfærð um að félagsskapur af þessu tagi, tiltölulega lítið félag með mjög afmarkað verksvið, eigi að eiga rétt að aðkomu að Jafnréttisráði sem er eðli málsins samkvæmt fámennt ráð. Ég teldi að þar þyrftu þá að vera fulltrúar sem hefðu mjög marga á bak við sig eins og t.d. launþegahreyfingarnar og Samband ísl. sveitarfélaga. Ég vil nota tækifærið og fagna því að nefndin skyldi hafa ákveðið að bæta inn fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga í ráðið. Það finnst mér eðlileg ákvörðun og góð en ekki að sama skapi sú ákvörðun að setja Félag um foreldrajafnrétti, sem áður hét Félag ábyrgra feðra, inn í ráðið. Ég hefði þá talið eðlilegra, ef menn vilja taka forræðismál eða málefni einstæðra foreldra sérstaklega inn að borði hjá Jafnréttisráði, að taka stórt og mikið félag sem starfað hefur á landsvísu og þar er ég að tala um Félag einstæðra foreldra. Ég hefði viljað fá rökstuðning nefndarmanna um það hvers vegna Félag einstæðra foreldra kom þá ekki frekar til álita en Félag um foreldrajafnrétti.

Það vekur líka athygli að á listanum yfir umsagnaraðila gaf Félag um foreldrajafnrétti ekki einu sinni umsögn um málið til nefndarinnar. Því var send beiðni um að gefa umsögn en það gaf ekki neina slíka. Ég hefði því talið að hér færi mun betur á því að endurskoða þá ákvörðun nefndarinnar að setja fulltrúa frá Félagi um foreldrajafnrétti inn í ráðið. Ég hefði talið að við ættum að endurskoða ákvörðunina milli 2. og 3. umr.. Sömuleiðis legg ég til að ákvörðunin um að taka fulltrúa frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum út, verði endurskoðuð.

Seinni hluta ræðu minnar langar mig til að eyða í að tala um vottunarkerfið. Ég sat hér og hlustaði á hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson ræða um vottunarkerfið rétt áðan. Hv. þingmaður á sæti í nefndinni. Honum var tíðrætt um einfaldara Ísland og var með vangaveltur um að lagafrumvarpið flækti stjórnsýsluna í stað þess að einfalda hana. Hann sagði að með frumvarpinu væri verið að leggja kvaðir á atvinnulífið og auka vægi stofnana og fjölga þeim. Hann hefur áhyggjur af því að við stefnum í vandræði. Greinilega hefur hv. þingmaður þó ákveðið að fylgja málinu og þeim hugmyndum sem það gengur út á frekar en að fylgja sinni ýtrustu sannfæringu í þessum efnum. Ég virði það við hann. Mér finnst það eðlilegt. Ég vil hins vegar gera athugasemd við orð hv. þingmanns um að jafnréttisáætlanir af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir séu íþyngjandi í eðli sínu. Ég hefði haldið að vottunarkerfi sem slíkt væri nýtt bákn sem gæti mögulega orðið íþyngjandi fyrir okkur, löggjafann og skattborgarana, umfram það sem jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana hefðu orðið.

Mín trú er sú að jafnréttisáætlanir fyrirtækja og stofnana séu tækið sem við eigum að nota til að tryggja að jafnrétti sé í raun í öllum fyrirtækjum og öllum stofnunum. Ég hefði því talið að nefndin hefði átt að skoða jafnréttisáætlanirnar þar sem best hefur tekist til og taka afstöðu til þess hvort slíkar jafnréttisáætlanir nægðu ekki til að tryggja markmið laganna.

Ég nefni hér tvær áætlanir sem eru til fyrirmyndar þar sem við þekkjum til. Þær eru aðgengilegar á vefsíðum og hafa sannað ágæti sitt. Það er í fyrsta lagi jafnréttisáætlun Tryggingastofnunar ríkisins sem er mjög vel unnin, mjög vel ígrunduð, og hefur þegar sannað ágæti sitt. Sömuleiðis vil ég nefna fyrirtæki á borð við SKÝRR sem einnig hefur gert jafnréttisáætlun sem ég tel vera til fyrirmyndar. Þessar jafnréttisáætlanir sem best hafa verið unnar eru þannig að þær gera vottunarkerfi, af því tagi sem nefndin hefur hugmyndir um að innleiða, fullkomlega óþarft. Ég veit til þess að þar sem umræður hafa komið upp um vottunarkerfi — þá er ég að tala um vottunarkerfi sem varða launamál og jöfnun launamunar milli kynja — hafa komið upp verulega alvarlegar ábendingar eða vísbendingar um að þau geti aldrei orðið fullkomin eða þjónað þeim tilgangi sem menn ætla þeim.

Ég held því að með vottunarkerfi stefnum við inn á braut sem á eftir að leiða okkur í tómar ógöngur. Það hefði verið miklu nær að skoða þær fyrirmyndar jafnréttisáætlanir sem eru til staðar og fara eftir þeim. Jafnréttisáætlanir eru að mínu mati virk tæki í þessari baráttu okkar. Þær eru ekki íþyngjandi og Jafnréttisstofa er orðin mjög klók í því að veita fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf við samningu jafnréttisáætlana. Hún er í raun og veru búin að búa til módel sem virkar eins og best verður á kosið. Ég hefði því talið að við hefðum átt að fara hægar í þessum efnum, halda okkur við jafnréttisáætlanirnar og sleppa hugmyndafræðinni varðandi vottunarkerfið sem að mínu mati er mjög illa ígrunduð og illa rökstudd í áliti nefndarinnar.

Að lokum langar mig að gera að umtalsefni hugmyndafræðina um samþættingu kvenna- og kynjasjónarmiða. Samkvæmt A-lið 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að markmiðum laganna skuli náð með því að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótunum og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins.

Ég vek athygli á þessu hugtaki, samþættingu, sem er í mínum huga mjög mikilvægt og er lykill að því að við náum árangri í þessum málum. Í umsögn Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum um frumvarpið kemur fram að þetta grundvallaratriði varði víðtæka aðferðarfræði sem sjái of lítinn stað í frumvarpinu. Það skorti á að frumvarpið geri ráð fyrir því hvernig samþættingin eigi að fara fram og hvernig samþættingarsjónarmiðanna sé gætt.

Í mínum huga er orðið mjög nauðsynlegt og afar brýnt að stjórnvöld átti sig á því að þegar við tölum um samþættingu kynjasjónarmiða inn í allar ákvarðanir, er það mjög skörp og skýr krafa um að ákvarðanir í stjórnsýslunni og hjá löggjafanum séu ekki teknar öðruvísi en að upp sé brugðið sjónglerjum jafnréttis.

Þannig samþættir maður kynjasjónarmið við allar ákvarðanir og lagasetningu. Það þýðir í raun og veru að við tökum aldrei neina samfélagslega ákvörðun þar sem ekki verður spurt hvort hún komi misjafnt niður á kynjunum. Ef mögulega er um misjöfn áhrif að ræða þarf að tryggja að (Forseti hringir.) jafnaður verði út sá munur og þar með hefur samþætting átt sér stað. Hafa má mörg orð um þetta. Það er kannski einnig fræðilegt, hæstv. forseti, en ég læt hér máli mínu lokið að sinni en mun koma með frekari ábendingar í næstu ræðum.