135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

geislavarnir.

353. mál
[14:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um geislavarnir. Frumvarpið er samið í heilbrigðisráðuneytinu í nánu samstarfi við Geislavarnir ríkisins.

Með frumvarpinu er lagt til að eftirlit Geislavarna ríkisins verði einfaldað og dregið verði úr reglubundnu tæknilegu eftirliti. Þess í stað verður lögð aukin áhersla á ábyrgð notenda, virkt gæðakerfi og mat á geislaálagi sjúklinga. Þessar áherslubreytingar í starfsemi stofnunarinnar eiga að skila verulegum árangri í þeirri viðleitni að notkun geislunar á Íslandi sé sem árangursríkust og að geislun á fólk, almenning, starfsmenn og sjúklinga, sé sem minnst. Samhliða tillögum að lagabreytingum er unnið að breytingum á reglugerðum sem Geislavarnir ríkisins starfa eftir með sömu markmið í huga.

Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru fjórþættar. Í fyrsta lagi er lögð til einföldun á framkvæmd eftirlits með innflutningi, uppsetningu og breytingum á geislatækjum sem gefa frá sér jónandi geislun. Frumvarpið gerir ráð fyrir að í stað þess að innflytjendur geislavirkra tækja þurfi að senda Geislavörnum ríkisins tilkynningu í hvert skipti sem slíkt tæki er flutt inn verði innflutningur tilkynntur stofnuninni árlega. Þá er í frumvarpinu lagt til að uppsetning geislatækja verði tilkynningarskyld en ekki leyfisskyld eins og nú er. Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir að krafa um leyfi vegna breytinga á geislatæki verði felld niður.

Í öðru lagi er lagt til að útflutningur geislavirkra efna verði háður leyfi Geislavarna ríkisins. Leyfi til útflutnings verður því aðeins veitt að stjórnvald í móttökulandinu staðfesti að móttakandi efnisins hafi leyfi til móttöku geislavirkra efna. Gera má ráð fyrir að innflutningur geislavirkra efna verði í auknum mæli háður því að útflutningur þeirra frá móttökulandinu sé háður leyfi og að takmarkanir verði settar á sölu geislavirkra efna til landa sem ekki hafa slík ákvæði í löggjöf sinni. Því er lagt til að kveðið verði á um þetta með skýrum hætti í lögum.

Í þriðja lagi að Geislavörnum ríkisins verði falin nauðsynleg mælifræði og umsjón með og varðveisla landsmæligrunna fyrir jónandi geislun og geislavirkni. Með mælifræði jónandi geislunar er átt við fræði og aðferðir til að mæla geislun, geislaskammta og geislavirkni. Með landsmæligrunni er átt við mælitæki eða mælikerfi sem ætlað er að skilgreina eða endurgera mælieiningu sem hafa skal til viðmiðunar í viðkomandi landi.

Í fjórða lagi er orðalag nokkurra greina gildandi laga gert skýrara. Frumvarpið var sent ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur til umsagnar. Nefndin tók í umsögn sinni undir þá stefnumörkun sem í frumvarpinu felst að leggja áherslu á að nýta gæðakerfi og innra eftirlit fyrirtækis þannig að unnt sé að draga úr og einfalda opinbert eftirlit.

Í mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaðaráhrifum frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður Geislavarna ríkisins aukist um 6,1 millj. kr. á ári og stofnkostnaður verði um 8 millj. kr. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi frá og með 1. janúar 2009 og allur kostnaður af framkvæmd þeirra rúmist innan fjárhagsramma heilbrigðisráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að því verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.