135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki draga af mér í vinnunni við þessi mál í menntamálanefnd, eins og hv. þingmaður auðvitað veit. Nefndin hefur starfað afar vel og verið mjög iðin, jafnvel nefnda iðnust það sem af er þessu þingi. (SKK: Alveg lúsiðin.)

Alvara málsins er hins vegar sú að til stendur að breyta skólakerfi okkar frá leikskóla og upp í háskóla. Það liggur fyrir á hvern hátt ríkisstjórnin vill gera það. Gríðarlega margar umsagnir liggja fyrir um þau mál sem við vinnum að nú þegar. Ég hef verið talsmaður þess að hægja megi á þeirri vinnu eða hugsa sér það að þau mál fengju frest, að áfram yrði unnið í þeim málum, einhverju þeirra eða öllum, í sumar. Málin kæmu síðan í nýjum búningi fyrir þingið í haust og yrðu kláruð um jólaleytið. Það hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá hv. formanni nefndarinnar. Hann hefur viljað halda því til streitu að reyna til hins ýtrasta að klára málin í vor.

Ég leggst á sveif með honum varðandi það að vel verði unnið og fundum verði fjölgað. Ég get hins vegar ekki sagt að ég geti bætt við tíma í sólarhringinn þótt ég vildi gjarnan hafa vald til þess. Ég held að menn verði að horfa á veruleikann í þessum efnum. Það er skammur tími til stefnu og þessi ríkisstjórn verður að átta sig á því að eitthvað af þessum málum þarf mögulega að frestast. Kannski þyrftu menn að fara að ákveða hvaða málum megi fresta.