136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

staða á fjölmiðlamarkaði á Íslandi.

[14:37]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Já, nú eru sagðar fréttir af kaupum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á helstu eignum 365 miðla og í þeim fréttum er mest talað um hvort hann sé að notfæra sér veika fjárhagsstöðu fyrirtækisins, hvort hann sé að greiða of lítið fyrir eignirnar og hvar hann hafi grafið upp þennan eina og hálfa milljarð. Þetta er umfjöllun viðskiptalegs eðlis en hún segir heilmikið um fjölmiðla og fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi. Við höfum því miður sjaldan náð lengra í fjölmiðlaumfjölluninni en að takast á um það hvort þeir eigi að vera einkareknir eða ríkisreknir og frá 1985 þegar einkareknir fjölmiðlar fóru af stað hefur það vægast sagt gengið misjafnlega. Fjárhagslegur grundvöllur einkarekinna miðla hefur alltaf verið mjög erfiður enda segir það sig sjálft í jafnsmáu samfélagi, ekki einu sinni meðan Ríkisútvarpið var eitt á hinum eftirsóknarverða auglýsingamarkaði nægðu auglýsingatekjurnar fyrir rekstrinum. Samþjöppunin nú er auðvitað til marks um þetta.

Á seinni árum hafa gírugir kaupahéðnar þanið auglýsingamarkaðinn út, klappaðir upp af frjálshyggjufólki, fyrst og fremst að því er virðist til að ná að standa undir útgáfu blaða og tímarita og útsendingu sjónvarps og hljóðvarps, fjölmiðla sem hafa jafnvel verið í eigu þeirra sjálfra. Nú þegar harðnar á dalnum og auglýsingatekjur næstum gufa upp, þá eru fjölmiðlafyrirtækin hluti af atvinnufyrirtækjum landsmanna og við í þessum sal þurfum að horfa á að fjöldi fólks sem hefur átt lifibrauð sitt undir þessum fyrirtækjum er að missa vinnu sína. Þetta er afar snúin staða, virðulegi forseti, sem bregðast þarf við en við þurfum líka að svara hinni pólitísku spurningu, ekki aðeins hinni viðskiptalegu: Til hvers eru fjölmiðlar? Eru þeir eins og hver önnur fyrirtæki sem eigendur setja á stofn til að ávaxta pund sitt? Nei, auðvitað er ekki. Fjölmiðlar eru mikilvæg tæki til að stunda lýðræðislega umræðu (Forseti hringir.) og lýðræðislega upplýsingu og á þessum tímum er veruleg þörf fyrir sterkt ríkisútvarp og sterkt ríkissjónvarp.