136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[16:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um það að hagsmunir Evrópusambandsins hafi verið teknir fram fyrir hagsmuni Íslands, það sagði ég hvergi og það er alls ekki meining mín. Ég er sannfærður um að auðvitað erum við fyrst og fremst að vinna að hagsmunum Íslands. Ég tel að það sé ekki ótvíræð lagaskylda okkar að axla þessar skuldbindingar en við höfum sannarlega siðferðilegar skuldbindingar í málinu og við höfum líka skuldbindingar gagnvart samstarfi okkar við aðrar þjóðir. Við þurfum auðvitað að taka um það ákvörðun hvort við ætlum að vera einhvers konar Nígería norðursins, vera bara stikkfrí og neita öllu eða hvort við ætlum að halda áfram að vera virkir þátttakendur í samfélagi siðaðra þjóða. Til þess er auðvitað gerður sá leiðangur sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt upp í.

Hvað varðar það hvort ég hafi vísað til hæstv. forsætisráðherra um þessi atriði var ég ekki að því. Ég var að vísa til þess að ýmislegt í því sem var gert í þessari bankaútrás var með þeim hætti gert og að því þannig staðið að það varð til þess að einangra okkur enn frekar. Það var að ýmsu leyti, liggur mér við að segja, gengið fram af hroka og ruðst sannarlega inn með miklum yfirboðum á markaði þegar mönnum var löngu orðið ljóst, eins og í Hollandsdæminu, að erfiðleikar bankans voru orðnir talsverðir og að hætta væri á því að þeim innlánum sem verið væri að sækja yrði ekki hægt að skila aftur. Það held ég að fyrst og fremst forustumönnum bankanna hafi einfaldlega átt að vera ljóst, enda rekstur bankanna á þeirra ábyrgð.