136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er eins og fleiri í hans flokki trúaður Evrópusinni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju vildu viðsemjendur okkar ekki leggja málið í dóm? Vegna þess að þeir óttuðust að tapa því. Af hverju var óskiljanlegur dráttur á afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, svo vikum og vikum skipti sem skaðaði Ísland óheyrilega, herra forseti? Það er vegna þess að Hollendingar og Bretar og síðan allt Evrópusambandið, þessir svokölluðu vinir okkar, lögðust á eitt að kúga Íslendinga og ég tek mér það orð í munn þó að hv. þingmaður banni mér það.

Svo segir hann að fjármálalegur stöðugleiki sé mikilvægur. Auðvitað er hann mikilvægur. En hann er ekki bara mikilvægur fyrir íslenska skattgreiðendur. Hann er líka mikilvægur fyrir Breta, Frakka, Hollendinga og svo framvegis. Þeir áttu að koma með að lausn þessa vanda strax í staðinn fyrir að senda reikninginn á Ísland. Svo segir hv. þingmaður að við berum meiri ábyrgð en önnur ríki. Er það svo? Fjármálaeftirlitið íslenska heimilar eingöngu starfsemi. Síðan er það fjármálaeftirlit Breta og Hollendinga sem fylgist með og á að passa greiðslurnar á hverjum degi. Þeir brugðust þannig að við berum ekki endilega meiri ábyrgð en önnur ríki á þessu eða innlánstryggingasjóður Íslands.

Það kemur fram í fréttum að Darling, fjármálaráðherra Breta, vill endurskoða innstæðutryggingakerfi Evrópulanda. Hann vill nefnilega ekki að breskir skattgreiðendur greiði fyrir innstæður í breskum útibúum erlendra banka. Hann vill ekki að breskir skattgreiðendur greiði þetta. En hann er gjarn á að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn sem er brot á reglum Evrópusambandsins sem gera ráð fyrir því að fjármálastofnanirnar sjálfar fjármagni þetta.