137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þegar núverandi ríkisstjórn tók fyrst við völdum töluðu stjórnarliðar um að verkefni þeirra ættu fyrst og fremst að vera þau að reisa við atvinnuvegina og að mynda skjaldborg um heimilin í landinu. Síðan þá eru liðnir margir mánuðir og lítið hefur gerst. Við erum enn þá að tala um háa stýrivexti. Á sama tíma og helstu viðskiptalönd okkar bregðast við minnkandi eftirspurn með því að lækka stýrivexti nánast niður í núll í sumum tilvikum býr íslenskur almenningur við það sem skilgreina mætti sem okurvexti, alla vega á vestrænan mælikvarða.

Talað er um að kaupmáttarskerðingin sé núna orðin 11% á síðustu tólf mánuðum. Verðtryggð lán hafa hækkað um 20–26% ef við tökum síðustu 12–18 mánuði. Vörukarfan hefur samkvæmt síðustu könnun hjá ASÍ hækkað um 25%. Og við það bætast þau vörugjöld sem ríkisstjórnin var að leggja á núna. Gengistryggð lán hafa tvöfaldast þannig að það er alveg sama hvað ríkisstjórnin lemur höfðinu við steininn, staðan í dag mjög slæm og skuldir eru að sliga íbúa landsins hvort sem við horfum á heimilin eða fyrirtækin í landinu. Við heyrum daglega af því að fólk eigi í erfiðleikum með að halda íbúðarhúsnæði sínu og fyrirtæki verða gjaldþrota dag hvern. Greiningarfyrirtæki hafa áætlað að um tíu fyrirtæki verði gjaldþrota dag hvern.

Það gerist þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að fresta gjaldþrotum til 1. október. En ég kvíði því hins vegar mikið hvað mun gerast 1. október ef ekki verður gripið til aðgerða eins og við hvetjum til hérna. Hvað mun gerast þegar allir bunkarnir verða teknir upp úr skúffunum hjá sýslumönnum hringinn í kringum landið og gengið verður að fólki?

Ég las viðtal við hæstv. félagsmálaráðherra Árna Pál Árnason þar sem hann lýsti því yfir að honum fyndist það ekki vera stórmál að fólk þyrfti að borga í kringum 50 þús. kr. aukalega á mánuði af verðtryggðum lánum. Ég verð nú að taka undir þau orð sem fram komu fyrr í dag, ég er ekki alveg viss um hvað viðkomandi er að gera í þessu ráðuneyti. Það sýnir algjört skilningsleysi á stöðu heimilanna í landinu. Þess vegna höfum við verið að tala fyrir því frá því í febrúar að fara í leiðréttingu á skuldum og að grípa verði til almennra aðgerða fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Að við verðum að grípa til aðgerða sem geta komið íslensku efnahagslífi aftur af stað. Menn verða að hætta að grafa, ekki bara höfuðin í sandinn heldur nánast allan búkinn.

Hugmyndin byggist á því að nýju bankarnir munu væntanlega fá lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti og hefur verið talað um allt að 50%. Það hefur hins vegar verið erfitt að fá upplýsingar um það hversu nákvæmur þessi afsláttur er og byggist það m.a. á því, að mér skilst, að þær matsaðferðir sem verið er að nota til þess að meta bankana eru ekki þær aðferðir sem venjan er að nota í fyrirtækjum sem eru gjaldþrota eða stopp. Ekki er verið að meta eignir samkvæmt svokölluðu gangvirði ef maður þarf að selja eignir í dag, heldur eru eignirnar metnar eftir því hversu mikils virði þær verða þegar við verðum komin í gegnum kreppuna að því gefnu að viðkomandi fyrirtæki og einstaklingar muni þá geta rekið fyrirtæki sín, fengið nægt fjármagn og að einstaklingar eða heimilin muni geta haldið vinnunni sinni og haldið áfram að borga af eignum sínum. Það verði ekki þannig að farið verði að selja fasteignir í miklu magni víðs vegar um landið.

Við teljum okkur hins vegar hafa upplýsingar um að erlendu kröfuhafarnir urðu hreinlega um síðustu áramót að afskrifa lánin sem þeir veittu íslensku bönkunum vegna þess að það lá fyrir að bankarnir voru gjaldþrota. Þeir voru ekki lengur í rekstri. Það var því engin leið fyrir þessa banka að hafa áfram lánin í bókum sínum. Þeir munu hins vegar að sjálfsögðu leitast við að fá sem mest greitt af skuldum sínum en margir hafa viðurkennt að það sé mjög erfitt að fá jafnmikið og þeir lánuðu. Við framsóknarmenn fullyrðum að það sé hagur allra, ekki bara skuldara, að koma íslenska hagkerfinu aftur af stað og forða þar með fjöldagjaldþrotum.

Hugmyndafræðin á bak við tillögur okkar er að ef þeir skuldsettu ná sér aftur á strik er von til þess að fá eitthvað upp í skuldir. Það er mikilvægt fyrir óskuldsett eða lítið skuldsett heimili að vandamálin færist ekki yfir á þau með lækkandi fasteignaverði og almennri verðhjöðnun.

Þegar ég var að skrifa sem mest um þetta eftir að hugmyndin kom fyrst fram og við fengum mjög harkalega gagnrýni á okkur fyrir hana rakst ég á bandaríska rannsókn sem gerð var á lánasöfnum í Kaliforníu og var birt á Bloomberg. Sú rannsókn sýndi fram á að 20% eða meiri lækkun á höfuðstól lána hefði mun varanlegri og betri áhrif á greiðslugetu viðkomandi skuldara en það að frysta eða dreifa greiðslum, eða svokölluð greiðsluaðlögun sem ríkisstjórnin hefur lagt svo mikla áherslu á. Þá var verið að meta tvær mismunandi aðgerðir og síðan eftir ákveðinn tíma var skoðað hversu miklar líkur væru á því að viðkomandi skuldarar stæðu í skilum eða ekki. Rannsóknin sýndi algjörlega fram á það sem við framsóknarmenn höfum haldið fram. Einnig hefur hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson bent það á það í greinargerð og skrifum að þessi aðgerð skilar einmitt þeim áföngum sem við höfum talað um, að fólk er betur fært um að standa í skilum við lækkun höfuðstóls en við greiðsluaðlögun.

Annar maður sem ég tel að margir í hinum vestræna heimi og víðs vegar í heiminum taki mark á, Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, lagði til fyrir um tveimur árum síðan að höfuðstóll bandarískra undirmálsfasteignalána yrði lækkaður af bönkunum sjálfum til þess að koma í veg fyrir það hrun sem síðan hefur orðið á fasteignamarkaðnum. Bankarnir hunsuðu hins vegar ráðleggingar hans og við höfum séð afleiðingarnar af því í Bandaríkjunum.

Ég get nefnt fleiri nöfn eins og Nouriel Roubini sem hefur talað á sama hátt og Niall Ferguson, prófessor við Harvard-háskóla, sem skrifar reglulega í Financial Times, þeir hafa báðir bent á að í sumum tilvikum geti verið nauðsynlegt að fara í svona umfangsmiklar almennar aðgerðir eins og við tölum um hér.

Ég verð hins vegar að segja að eftir að ég var búin að lesa aftur ræðu hæstv. forsætisráðherra um stöðu heimilanna varð ég kannski svolítið bjartsýnni en ég hef lengi verið. Ég tel, og það má greina það í orðum hæstv. forsætisráðherra, að verið sé að vinna að því, loksins þegar Seðlabankinn er kominn úr þessari skoðunarferð sinni, að afskrifa eða leiðrétta hluta af skuldum heimilanna.

Það sem ég hef miklar áhyggjur af er að verið er að tala um að rýmka heimildir fjármálastofnana ríkisins til einstaklingsbundinna afskrifta í anda greiðsluaðlögunar — það fína orð — án þess að til opinberrar innköllunar kunni að koma eða niðurfellingin verði skattlögð eins og nú er. Þegar ég les þetta kemur eitt orð upp í huga minn, það er spilling. Við erum að tala um enn á ný að það eigi að fara að bjóða Íslendingum upp á að setjast á biðstofu bankastjóranna og grátbiðja þá hugsanlega um að afskrifa lán viðkomandi fjölskyldu eða fyrirtækis. Það er algjörlega óásættanlegt. Það verður að setja almennar reglur um svona aðgerð alveg eins og við framsóknarmenn leggjum til hér.

Ég fagna líka innilega þeirri tillögu sem kom fram einmitt í sömu umræðu hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem hún talaði um að það væri kominn tími til þess að við mundum setja á stofn hóp þar sem allir kæmu að borðinu, stjórnarandstaðan og stjórnarmeirihlutinn, Hagsmunasamtök heimilanna, Neytendasamtökin, talsmaður neytenda og aðrir, og við færum í gegnum þær tillögur sem liggja fyrir. Að við reyndum að komast að góðri og sanngjarnri leið til þess að leiðrétta þá gífurlegu hækkun sem orðið hefur á lánum íslenskra heimila og fyrirtækja.