137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Varðandi hið síðasta held ég að ég verði bara að senda hv. þingmanni þær ræður sem ég flutti t.d. í EES-ráðinu upp á síðkastið um þau mál. (Forseti hringir.)

(Forseti (SF): Ég vil biðja hv. þingmann að ávarpa forseta — hæstv. ráðherra.)

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er ánægður með viðtökur mínar við þessu. Mér finnst þetta almennt vera jákvætt, en ég sagði líka — til þess aðeins að dempa ánægju Sjálfstæðisflokksins, virðulegi forseti — að það er fyrst og fremst ein tillaga sem er splunkuný þarna, ein tillaga sem ég hafði aldrei séð áður, sem mér finnst vera mjög hugvitsamleg.

Um vilja ríkisstjórnarinnar til þess að afla orku liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin vill nýta orkulindir með skynsamlegum hætti. Hún vill t.d. afla orku fyrir norðan til þess að koma í græna stóriðju eins og menn hafa nefnt það í okkar ágætu stefnuyfirlýsingu. (REÁ: Nærri Þjórsá.) Ég veit ekki betur en ég sé búinn að halda hér tvær eða þrjár ræður í dag um nauðsyn þess að ráðast í Búðarhálsvirkjun þar sem öll leyfi eru til.