137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

66. mál
[16:13]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu vegna fyrirspurnar frá hv. þingmanni. Það hefur svo sem ekki neitt annað bæst við þetta nema að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr hvort ég geti beitt mér fyrir einhverjum sérstökum lögum til að flýta þessum framkvæmdum. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður eigi þá við lög um umhverfismat. Ég hygg að lög frá hæstv. samgönguráðherra muni ekki geta tekið þau út. Þetta er það ferli sem Alþingi hefur ákveðið. Svo getum við aftur haft skoðanir á því hvernig það gengur stundum fyrir sig.

Við áttum okkur á því að ekki alls fyrir löngu var felldur dómur um ákveðinn kafla á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegagerðin kærði það strax og Vesturbyggð líka, að mér skilst. Og við þekkjum hvernig málin hafa gengið fyrir sig í Gufudalssveit. Þetta hefur allt tafið framkvæmdir, það er alveg ljóst.

Hv. þingmaður spyr líka hvernig ég hyggist hraða þessum framkvæmdum. Það kom skýrt fram í máli mínu að það er erfitt að gefa svoleiðis yfirlýsingar í dag miðað við stöðu ríkisfjármála og miðað við hvaða stöðu við erum í. Ég hygg þó að áhersla mín hafi komið fram strax eftir áramót þegar fjárlög voru tilbúin, kafli á sunnanverðum Vestfjörðum, Kjálkafjörður/Vatnsfjörður, var það fyrsta sem boðið var út. Þar hefur verið gengið frá samningi við verktakann sem mun fara í þá framkvæmd.

Varðandi Dýrafjarðargöng er ekkert um þau að segja nema það sama og ég sagði áðan. Það er erfitt að skilgreina og segja til um hvenær hlutir fari í útboð vegna þess að við þurfum að sjá fjárlög og beinagrindina að fjárlögum fyrir öll þau ár sem við erum að tala um í ríkisfjármálum sem við þurfum að setja niður vegna þeirrar stöðu sem þjóðarbúið er í.