137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[16:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég væri ekki bara að þreyta þingsalinn með því að flytja alla ræðuna upp á nýtt (REÁ: Nei.) þannig að ég vísa bara í gömul gögn, hv. þingmaður.

Ég ætla að svara því sem hv. þingmaður vék að hvað varðar eigendastefnuna. Ég hef ekki séð eigendastefnuna frekar en hv. þingmaður en ég mundi vilja að með henni markaði ríkið einhvers konar almenn viðmið í rekstri fjármálafyrirtækja sem það hefur með að gera, hvort sem það er eini eigandinn eða hlutaeigandi. Hvert og eitt fjármálafyrirtæki hafi svo möguleika á að marka sína eigin stefnu innan hennar og þannig ríki eðlileg samkeppni á markaði. Það er forsenda þess að eigendastefnan geti virkað og að við náum að byggja upp fjármálamarkað okkar. Þá á ég við fyrir hvern banka fyrir sig, hversu margir sem þeir verða, og um leið hvað sparisjóðakerfið snertir.