137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú erfitt að gera öllum til geðs í þessari umræðu. Það bara er einfaldlega þannig að hér liggur fyrir tillaga frá stjórnarflokkunum um að ganga í Evrópusambandið af því bara, um að ganga í Evrópusambandið án þess að nein samstaða sé um það meðal ríkisstjórnarflokkanna, án þess að rökin séu færð fyrir því að það sé skynsamlegt, eftirsóknarvert. Nei, það er látið algjörlega hjá líða. En því er skýrt haldið til haga að menn áskilji sér rétt til að berjast gegn niðurstöðunni. (Gripið fram í: Já.)

Þegar maður kallar eftir því hér við síðari umr. að hæstv. ráðherrar geri grein fyrir því hvað verði samningsbrjóturinn í viðræðum við Evrópusambandið þá fær maður loðin svör.

Ég veit að hv. þingmaður talar gegn betri vitund þegar hún segir að henni sé ekki stefna Sjálfstæðisflokksins skýr vegna þess að við höfum farið í gegnum hagsmunamatið. Ég lét vera að rekja það hér að nýju vegna þess að um það var rætt meðal annars í kosningunum í vor. Við höfum metið hagsmunina þannig að þeir séu meiri á grundvelli (Forseti hringir.) óbreytts ástands en að ganga inn.

Ég lét þess líka getið að þessi stefna er ekki meitluð í stein. (Forseti hringir.) Þetta eru engin trúarbrögð og við viljum viðhafa viðvarandi hagsmunamat.