137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans ræðu, það var mjög áhugavert að hlusta á hann. Blaðið The Economist hefur að mínu mati verið mjög andsnúið Evrópusambandinu og mjög gagnrýnið á bæði efnahagsstefnu og samsetninguna þar. Þeir voru nýlega með umfjöllun um framtíð evrunnar, ég held að það hafi verið í síðasta tölublaði. Þrátt fyrir þá miklu gagnrýni sem þeir hafa haldið uppi varð held ég niðurstaða leiðarahöfunda að þau ríki sem eru í myntbandalaginu virðast almennt vera sammála um að halda áfram með evruna og m.a.s. þau ríki sem voru orðin mjög gagnrýnin á myntbandalagið og jafnvel farin að hugsa sér að fara út úr því virðast hafa skipt um skoðun eftir efnahagshrunið. Ég hefði áhuga á að heyra frá þingmanninum út frá hans sérþekkingu: Hver er ástæðan fyrir þessum skoðanaskiptum þarna innan dyra?

Hv. þingmaður minntist aðeins á, eða skautaði létt yfir Svía. Ég veit ekki betur en að Svíar séu ekki með tengingu við evruna og mynt þeirra hefur veikst. Hv. þingmaður nefndi dæmi um það að Finnar hefðu verið að öfunda Svía út af því. Hins vegar veit ég ekki betur en það sé alvarlegt ástand í Svíþjóð líka og mikil hræðsla um hugsanlega mikil áföll fram undan í sænska bankakerfinu. Það væri því áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hans skoðanir á módelinu hjá Svíum út frá því sem hann ræddi í sinni ræðu.