137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér tekst ekki að fara yfir allt málið á einni mínútu þó að ég geti talað þokkalega hratt. Í örstuttu máli er það þannig að menn deila hér um túlkun á þessari tilskipun, það liggur alveg fyrir. Ég vakti athygli á því í ræðu minni hér áðan að menn halda ekki sjónarmiðum Íslands frammi, og hæstv. utanríkisráðherra ætti að hlusta á það, það er ekki verið að nýta utanríkisþjónustuna okkar til þess að koma þessum sjónarmiðum áleiðis til t.d. þingmanna þeirra þjóða sem við teljum vera vinaþjóðir okkar. Það er einn þáttur málsins.

Það væri æskilegt ef við gætum breytt mörgu í þessu máli öllu. Staðan er bara sú að við erum hér, þingheimur, að fást við þetta frumvarp. Það er það sem við erum að vinna með. Ég hef mjög sterka sannfæringu fyrir því að það sé afskaplega skynsamlegt hvernig frumvarpinu hefur verið breytt (Forseti hringir.) og hefðu menn ekki gert það hefði það verið stórslys.