138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[18:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég kann ekki við að hv. þingmaður tali um að hér sé verið að flytja frumvarp til laga sem ekki standist lög og að ég flytji frumvarp undir öðru yfirskyni. Hitt get ég sagt að það hefur verið haft samráð við mjög virta lögfræðinga í Evrópurétti varðandi þessi atriði og þeir hafa fullvissað okkur um að þessi atriði stæðust. Hver og einn getur síðan höfðað mál, það er eins og við vitum almennt gagnvart lögum.

Varðandi hvort við spyrjum önnur ríki eða aðra ráðherra hvort við megum setja lög um einhver atriði hér eða ekki þá tel ég að við höfum fullan rétt til þess að setja okkar eigin lög. Hitt er alveg klárt að aðilar hjá Evrópusambandinu og eins ræddi ég við landbúnaðarráðherra Noregs þegar ég hitti hann fyrir nokkru síðan, þeim er vel kunnugt um þessi mál. Þeir vilja fyrst og fremst að við fullgildum þessa innleiðingu þannig að það trufli ekki þeirra mál en efnisatriði eins og þessi hafa engin áhrif á stöðu Norðmanna hvað varðar samninga þeirra í heild sinni.