138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

fækkun opinberra starfa.

35. mál
[14:59]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á þeim erfiðu tímum sem þjóðin gengur nú í gegnum er fullur skilningur landsbyggðarinnar á því að skera þurfi niður og hagræða í rekstri. Hvert vel launað starf menntafólks sem hverfur úr sveitarfélagi er mikil blóðtaka sem hefur ekki einungis áhrif á tekjustofna heldur líka menntunarstig sveitarfélagsins. Húsnæðiskostnaður á landsbyggðinni er mun lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er ég ekki í vafa um að hin ýmsu embætti á landsbyggðinni gætu tekið til sín fleiri verkefni. Niðurskurður og sameiningar skila ekki alltaf fjárhagslegri hagræðingu. Það hlýtur því að vera krafa landsbyggðarinnar að áður en til niðurskurðar eða niðurlagningar starfa komi verði kannað til hlítar hvort um raunverulega hagræðingu sé að ræða ásamt því að þjónusta verði tryggð.