138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskoðun AGS og afgreiðsla Icesave.

[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekkert skúffusamkomulag og engir fyrirvarar faldir eða duldir á bak við þetta mál. Endurskoðunin hefur einfaldlega farið fram. Hún hefur verið samþykkt og án nokkurra fyrirvara eða skilyrða. Það er tekið skýrt fram í yfirlýsingunni að þar með opnist aðgangur að gjaldeyrislánunum, öðrum hluta lánanna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fyrsta hluta lánanna frá hinum Norðurlöndunum. Það er fólgið í afgreiðslunni sjálfri að það gerist í framhaldinu með beinum hætti og er auðvitað afar mikilvægt. Þá komumst við áfram með okkar efnahagsaðgerðir í heild sinni. Ég held að það megi þegar sjá þess ýmis jákvæð merki að þetta hefur sett hlutina af stað og á hreyfingu. Það er síðan í höndum Alþingis og fjárlaganefndar Alþingis að ljúka vinnu sinni við Icesave-frumvarpið og eins og ég segi hef ég verið og er bjartsýnn á að það fái farsælar lyktir.