138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

námslán til skólagjalda á háskólastigi.

223. mál
[18:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér finnst mér vera gamall draugur vinstri manna á ferð. Nú er aðeins byrjað að glytta í þá breytingu sem vinstri menn ætla sér hugsanlega að stefna að, þ.e. að fletja út allt háskólakerfið, minnka samkeppni og helst miðstýra því sem mest. Við erum búin að koma á auknu jafnrétti til náms með því að fjölga námsmönnum á háskólastigi. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér heldur vegna þess að farið var út í ákveðnar breytingar.

Ég ætla hins vegar að segja að ég fagna að mestu svörum hæstv. ráðherra, því að mér fannst hún fara mjög skynsamlega yfir það hvað þarf að gera í þessum málum. Það þarf að fara nákvæmlega yfir hlutina þannig að þeir verði gegnsæir varðandi það hver hin raunverulegu framlög eru til háskóla. Það er þess vegna sem ég kem hingað upp, af því að mér finnst spurningin vera lituð að því marki að fyrirspyrjandi gefur sér það að framlög til einkarekinna háskóla séu meiri á hvern nemanda en til til að mynda ríkisrekinna háskóla. Það er ekki rétt. Við skulum taka heildarframlögin eins og hæstv. ráðherra er í rauninni að draga fram, (Forseti hringir.) og það skiptir miklu máli að maður hafi heildarmyndina í huga en ráðist ekki á kerfið bara með það í huga að ýta undir eina tegund háskóla (Forseti hringir.) sem vill svo til að eru ríkisháskólar.