138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[10:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það er mjög líklegt að vextir muni hækka í framtíðinni. Vextir eru í sögulegu lágmarki núna og verða lágir næstu tvö til þrjú árin.

Ég fékk sérfræðinga í skuldastýringu til að fara yfir þetta mál með mér og þar kemur í ljós að ef vextir hækka um 1% á næsta ári, 2% á þar næsta o.s.frv. þangað til þeir eru komnir upp í 7%, sem væru vextir í sögulegu hámarki, er munurinn á því að vera með fasta vexti annars vegar og breytilega vexti hins vegar í kringum 93 milljarðar, miðað við 90% innheimtur eigna Landsbankans. Mig langar til að spyrja forsætisráðherra hvort það sé ekki full ástæða til að gera þingheimi eða alla vega þeim þingmönnum sem sitja í nefndum er málið varðar grein fyrir hvernig þessir fagaðilar unnu matið vegna þess að það hefur ekki legið fyrir og hefur ekki verið kynnt fyrir nefndum þingsins.