138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er annað atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vildi víkja að og kannski biðja hann að skýra aðeins nánar. Það er atriði sem hann nefndi í sambandi við gerð Icesave-samninganna eða aðdraganda að þeirri samningagerð sem við erum hér með til meðferðar. Hv. þingmaður nefndi að embættismannanefndir hefðu ítrekað klúðrað málum í því sambandi og þá er ég að velta fyrir mér hvort það sé ekki mat hv. þingmanns að nauðsynlegt hefði verið að taka málið á hæsta pólitíska stig í samningaviðræðum við þessar þjóðir til að reyna þó að beita því afli sem smáþjóð hefur í samskiptum við önnur lönd, í stað þess að hafa þetta tæknilegt úrlausnarefni embættismanna að færa þetta á pólitískt stig strax frá upphafi.