138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru mjög athyglisverðar spurningar um fulltrúa almennings. Ef menn vildu mikið við hafa gætum við að sjálfsögðu bara kosið um hann, bara einn maður, eitt atkvæði. Það mætti gera það rafrænt, þetta er orðið tiltölulega einfalt. Kannski væri það langbesta lausnin, þ.e. að almenningur mundi bara kjósa einhvern úr hópi manna sem eru tilbúnir til að sinna þessu starfi.

Samtök sveitarfélaga, það er líka hugmynd. Ég þekki ekki alveg nákvæmlega hversu lýðræðisleg uppbygging þeirra samtaka er, hvort Reykjavík ráði þar öllu, kannski er það þá verra, að fara þá leið að stóru sveitarfélögin ráði algjörlega en þau minni síður, þá er Alþingi kannski betra. Þetta vildi ég gjarnan að nefndin ræddi alveg í hörgul. Ég held að menn ættu kannski að skoða meira svona rafrænar kosningar, vegna þess að þetta er orðið eða ætti að vera orðið tiltölulega einfalt núorðið með tölvutækni og öllu slíku og lykilorðum. Við notum lykilorð í bönkunum okkar. Við notum lykilorð í skattinum og treystum því og ættum að geta notað eiginlega sama lykilorðið og í skattinum eins og þegar við förum að kjósa.

Þetta vildi ég gjarnan að nefndin skoðaði mjög nákvæmlega og er dálítið spenntur við að sjá hvað kemur út úr allri þeirri umræðu sem ég vona að verði ítarleg og málefnaleg, en skili að lokum einhverri niðurstöðu.