138. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar tala um að verið sé að gera ágreining úr litlu. Það er þó ekki þannig og það sýnir skilningsleysi þeirra og þekkingarleysi á sjávarútvegi. Ágreiningurinn er þetta mikill af því að þarna er farið í grundvallarforsendur fiskveiðistjórnarkerfisins okkar, þess vegna er svona breið samstaða í sjávarútvegi. Eins og ég sagði áðan er þetta fyrst og fremst aðför að minni sjávarútvegsfyrirtækjum sem stunda þessar veiðir og eignaupptaka hjá þeim, hjá fólki sem hefur spilað fullkomlega eftir þeim reglum sem Alþingi hefur sett og keypt sér aflaheimildir en nú á að hirða þær af því og skilja það eftir með skuldirnar.

Hitt er svo annað hvernig mönnum getur dottið í hug að heimila ráðherra að fara 80% fram úr vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það jafngildir, eins og ég sagði áðan, 270.000 tonnum í þorski. (Forseti hringir.) Það þarf auðvitað að hafa vit fyrir fólki sem lætur sér detta þetta í hug og það er það sem öll hagsmunasamtök í sjávarútvegi hafa reynt að gera (Forseti hringir.) með samstöðu sinni í andstöðu við þetta mál.