139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta orð eigi ágætlega við í þessu samhengi, þ.e. hér er verið að fjalla um virkjunarkosti og þar af leiðandi er nýtingarhugtakið í því beina samhengi. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni að nýting er auðvitað miklu víðari og vernd er nýting og ferðaþjónusta er nýting og öll umgengni í náttúrunni er nýting. Skipulag þjóðgarða er nýting. Við erum alltaf að nýta náttúruna með einum eða öðrum hætti. Í þessu samhengi, í þessu frumvarpi, tel ég að þetta orð eigi ágætlega við vegna þess að hér er mjög skýrt verið að fjalla um þessa virkjunarkosti sem metnir eru hér eða afstaða tekin til í þessu máli.