139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

301. mál
[15:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir frumvarpið. Manni finnst það undarlegt, og ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, að þegar verið er að ræða flutning á málefnum fatlaðra, sem er þjóðfélagshópur sem mér finnst við verða að standa vörð um og ætti að vera meginþungi umræðunnar, skuli menn eins og venjulega þegar breyting verður á stofnunum ekki vera að ræða um starfsmennina, sem oft verður þungamiðjan með umræðunni, og ekki þá skjólstæðinga sem þeir eru að veita þjónustu, heldur stéttarfélögin. Það er vegna þess að stéttarfélögin eiga skattlagningarvald yrir þessum starfsmönnum. Það er nefnilega ekki hægt að segja eins og hæstv. ráðherra sagði: Starfsmenn og stéttarfélög þeirra. Það ætti frekar að segja: Stéttarfélögin og þeir sem eiga að greiða skatt til þeirra. Vegna þess að samkvæmt lögum ber opinberum starfsmanni að greiða, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaganna, í viðkomandi stéttarfélag hvort sem hann vill eða ekki, hvort sem hann vill vera félagsmaður eða ekki. Við erum nýbúin að fá á okkur dóm frá Mannréttindadómstóli Evrópu um iðnaðarmálagjaldið. Þetta er enn þá verra, enn þá verra.

Ég held að menn ættu að vinda bráðan bug að því að breyta þessum lögum sem skylda opinbera starfsmenn til að borga inn í viðkomandi stéttarfélag, hvort sem þeir vilja vera í því eða ekki. Þess vegna er ómögulegt að tala um starfsmenn sem vilja eitt eða annað. Það eru stéttarfélögin sem vilja eitt og annað, því að ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi rætt við einstaka starfsmenn og hvað þá efnt til einhverrar skoðanakönnunar meðal þeirra. Þeir hafa ekkert val nema núna hafa sumir opinberir starfsmenn þröngt val samkvæmt þessu frumvarpi en þeir sem eru ráðnir eftir 1. janúar 2011 — það stendur í greinargerðinni, frú forseti — það er gert ráð fyrir að þeir hafi ekki þetta val og skuli áfram greiða til viðkomandi stéttarfélags, hvort sem þeir vilja eða ekki.