139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Ef við tökum aðeins sameiningu stofnana, frú forseti, þá hef ég spurt eftir því í þinginu og beðið um yfirlit yfir ríkisstofnanir sem hafa verið sameinaðar og árangur. Hann hefur hvergi, ef ég man rétt, verið mælanlegur. Yfirleitt hefur kostnaðurinn aukist en það hefur fylgt svarinu að það stóð aldrei til eða það gleymdist að setja einhverjar mælingar á það. Þannig að ekki var hægt að mæla neinn árangur af sameiningunni. Menn sögðu einfaldlega að það væri trúlega, væntanlega og örugglega faglegur árangur. Menn höfðu ekki hugmynd um það hvort fjárhagslegur ávinningur hefði verið nokkur.

Ég treysti mér ekki til þess að svara því hvort einstakar sameiningar sem hv. þingmaður nefndi muni skila hagræðingu. Ég vil minna á að þegar við erum farin að tala um sameiningu stofnana í dreifbýli þar sem eru gríðarlegar vegalengdir erum við komin inn á aðra hluti. Við erum komin inn á þolmörk öryggismarka fólks. Ef við mundum taka sambærilegar fjarlægðir og tíma sem fólk þarf að bíða til að komast á heilsugæslu, sjúkrahús eða leita til lögreglu, ef við settum þau þolmörk til að mynda yfir á íbúa höfuðborgarsvæðisins þá er ég alveg sannfærður um að það mundi heyrast mikið ramakvein í samfélaginu.

Ég veit ekki hversu langt við eigum að ganga. Það þarf alla vega að undirbúa mjög vandlega. Það kemur fram hér í þessu stutta andsvari munurinn á vinstri flokkum og stefnu okkar framsóknarmanna. Hér kemur hv. þingmaður og spyr hvort ég telji að það sé ekki hægt að ná fram meiri sparnaði og meiri hagræðingu úti á landi í ýmsum stofnunum. Því er ábyggilega hægt að ná. Ég veit reyndar að þau hafa staðið sig alveg gríðarlega vel. En við framsóknarmenn höfum sagt: Það er fullt af tækifærum, sækjum fram. Förum með heilbrigðisþjónustuna í útrás. Reynum að flytja inn fólk. Fáum tekjur af því að (Forseti hringir.) flytja inn erlent fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda og notum (Forseti hringir.) okkar frábæra starfsfólk.