139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er ánægjulegt að heyra viðbrögð hv. þingmanns við tillögunum sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram. Ég bendi á það hér í II. kafla tillagnanna, 2. tölulið, kaflinn ber heitið „Beitum hvötum til að örva hagkerfið“. (Gripið fram í.) Jú, ég treysti því að hv. þingmaður hafi lesið þetta. Hér er fullt af öðrum þáttum sem ég held að sé tiltölulega mikil og breið samstaða um, en okkur hefur einhvern veginn ekki auðnast að koma þessu lengra en í pappírsins form, í sama formi og þetta var lagt fram. Ég skora á hv. þingmann að leggja okkur lið við að reyna að gera þessa hluti með einhverjum hætti að veruleika. Ég held að þetta sé draumur okkar beggja, og raunar allra hér inni, að sjá okkur rísa hraðar og betur en við horfum fram á í dag. Ég hef fulla trú á að það sé hægt. En til þess að við náum því verðum við að leggja saman í þá vegferð.