139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Jöfn staða kynjanna og markmið jafnréttislaga eru hvort tveggja afar mikilvæg mál. Ekki er hægt að draga úr því að þetta eru hvort tveggja atriði sem ég held að flestir stjórnmálamenn, a.m.k. í orði kveðnu, leggi mjög mikla áherslu á og það hlýtur að vera markmið okkar sem hér störfum, a.m.k. bendir sú lagasetning sem þingið hefur staðið fyrir til þess að þetta sé vilji þingsins.

Það mál sem við ræðum í dag, þ.e. úrskurður kærunefndar jafnréttismála, er afar alvarlegt mál og mikilvægt að taka hér til umræðu. Vinna kærunefndarinnar byggist á sjálfstæðri gagnaöflun að nokkru leyti, einnig á gögnum máls, viðtölum við aðila málsins, og að mínu viti er úrskurðurinn skýr. Það er niðurstaða nefndarinnar, eins og kemur fram í úrskurðarorðinu, með leyfi forseta:

„… að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi er að mati kærunefndarinnar metinn jafnhæfur eða á sumum sviðum hæfari en hinn skipaði.“

Hins vegar er það svo að samkvæmt niðurstöðum ráðgjafa ráðuneytisins og þeirrar hæfnisnefndar sem ráðuneytið sjálft hafði skipað var þeim tveimur aðilum sem álitaefnið snýst um raðað í fyrsta og fimmta sæti samkvæmt einhvers konar stigagjöf. Ég get alveg séð að ráðherra hafi verið vandi á höndum þegar kom að því að meta þessar niðurstöður og að sumu leyti vandséð hvernig miðað við — eða í rauninni erfitt að bregðast við þessu. Ég held að það hafi verið mjög erfitt og ég öfunda ekki ráðherra af því að hafa lent í þessari stöðu. Ábyrgðin er engu að síður ráðherrans, það liggur algjörlega ljóst fyrir.

Við skulum ekki gleyma því að þarna er verið að tala um fimm einstaklinga sem voru teknir í tvö viðtöl af 41 umsækjanda í það heila. Ofar í röðinni en kærandi var til að mynda eftir því sem ég kemst næst af úrskurðinum raðað annarri konu og aðrir aðilar þar á milli. Mér finnst ráðuneytið þurfa í þessu máli að leggja allar upplýsingar í málinu á borðið. Við þurfum að vita nákvæmlega hvað var þarna undir. Mér finnst við ekki hafa fengið það almennilega á hreint. Sú yfirlýsing sem kom frá ráðuneytinu í gær gaf að vísu einhverjar upplýsingar en það voru ekki allar þær upplýsingar sem mér finnst að við sem þingmenn þurfum að hafa.

Hvernig var til að mynda stigakerfið sem þarna var notað? Hvernig í ósköpunum gat stigakerfið verið þannig að hægt væri að komast að allt annarri niðurstöðu af hálfu kærunefndarinnar en samkvæmt einhverju stigakerfi og viðtalskerfi sem farið var í í ráðuneytinu? Ég átta mig ekki á því. Þarf kannski að endurskoða ferlið? Þarf kannski í svona tilfellum að skoða nákvæmlega alla hina sem voru í lokahópnum? Er kannski ekki fullnægjandi að skoða bara fyrsta og fimmta af því að væntanlega eru aðrir þar á milli, einhvern veginn raðast þeir? Og þó að ég sé alls ekki að draga úr því að það var klárlega samkvæmt niðurstöðunni brotið á kæranda, hver er þá staða hinna sem voru þarna á milli?

Ég er líka efins í því, ég get alla vega ekki metið það af þeim gögnum sem liggja hér fyrir í þessu máli sem eins og ég sagði áðan eru ekki alveg fullnægjandi, að það hafi verið ætlunin að velja á milli þessara einstaklinga á grundvelli kynferðis, það get ég ekki séð. Mér finnst hreinlega eða mann grunar nánast að það hafi verið ætlunin með einhverju móti að velja eða tryggja það að þessi tiltekni einstaklingur, óháð kyni, fengi ekki djobbið, og kem þá kannski inn á þá athugasemd hæstv. ráðherra áðan að þar var um að ræða pólitískan samstarfsmann. Maður veltir því fyrir sér: Eru starfsmenn í ráðuneytinu orðnir svo miklir „kóarar“ með pólitískum réttrúnaði að þeir fari þessa leið?

Virðulegi forseti. Ég held að það sem við getum að endingu sagt hér sé að ráðuneytið eigi að hlíta niðurstöðum kærunefndarinnar. Það á að leggja öll gögn á borðið og ráðuneytið á svo sannarlega að finna leiðir til að bæta það tjón sem orðið er í málinu.