139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[14:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er spurt um forvarnir. Sá er nákvæmlega tilgangurinn með frumvarpinu. Það liggur fyrir að í Evrópu eru menn að fara í söluátak á skrotóbaki fyrir unglinga. Þess vegna grípur Lýðheilsustofnun til þessarar tillögu og fær stuðning minn. Ég flyt frumvarpsbreytinguna til að búa til markalínuna svo ekki þurfi að vera nein átök um þetta, þetta verði bara hrein lína. Við ætlum ekki að bæta þessu við líka. Það er ástæðan og þetta er auðvitað besta forvörnin. Það hefur sýnt sig að lagasetning varðandi t.d. reykingar í heiminum öllum hefur haft veruleg áhrif þar sem menn hafa bannað reykingar á ákveðnum svæðum. Mikið átak hefur verið gert varðandi munntóbak hjá íþróttahreyfingunni. Það hefur verið mjög erfitt mál og menn hafa verið að glíma við þetta viðfangsefni, margir þjálfarar, og ég þekki það frá heimabæ mínum, að fá íþróttamenn til að leggja af notkun munntóbaks, einfaldlega vegna þess að þarna var hópur sem skapaði ákveðna tísku og pressu á að nota slíkt tóbak.

Ég held því að frumvarpið sé mjög öflug forvörn. Því til viðbótar er Lýðheilsustöð auðvitað með öflugar forvarnir og kynningar. Þar má auðvitað alltaf gera betur en ég held að í þessu tilfelli skipti meira máli að fyrirbyggja hlutina af því að ekki er verið að færa mörkin mikið til og ætti því að vera auðvelt að leggja þessa línu á Íslandi.