139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst ræða hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar afskaplega góð. Hann kom inn á þætti sem við höfum lítið rætt en eru auðvitað stórmál og snúa að fjármálum. Mér fannst hv. þingmaður hitta naglann á höfuðið þegar hann sagði að hérna væri nákvæmlega öfugt farið við það þegar menn sameinuðu Landspítalann í eitt húsnæði. Þar ætla menn að ná fram sparnaði með því að setja stofnunina í eitt húsnæði en vegna þess að menn hafa ekki unnið undirbúningsvinnuna, hvorki varðandi húsnæðisþáttinn né fjárhagsleg og fagleg áhrif, þurfa menn að hafa áhyggjur af því hvar þessi útgjaldaauki kemur niður. Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega. Hið eina sem er algjörlega öruggt er að hann mun koma illa niður. Alveg sama hvað okkur finnst um stöðuna í dag til eða frá og einstaka hluti, t.d. húsaleigusamninga, er þetta raunveruleikinn sem blasir við okkur og okkur ber skylda til að vinna úr þessari stöðu eins vel og mögulegt er. En við erum ekki að því.

Hér voru atvinnumálin líka rædd, hvað verður um það fólk sem missir störf. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ræddi bréf frá hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands þar sem menn hafa áhyggjur af því að sameiningin komi í veg fyrir framþróun í hjúkrunarfræði og að við getum mannað hjúkrunarfræðistöður. Um er að ræða tvær til fjórar kennarastöður, ef ég man rétt. Þetta eru ekki stærstu upphæðirnar í fjárlögunum, tvær til fjórar kennarastöður í hjúkrunarfræði, en þetta eru sambærilegar tölur og við erum að tala um að séu útgjaldaaukinn á ári, í það minnsta upp í það ef svo fer fram sem horfir með þessar áætlanir. Það að menn geta ekki ráðið í þessar stöður þýðir að það er ekki hægt að mennta hjúkrunarfræðinga sem þýðir að það kemur niður á gæðum í heilbrigðisþjónustunni. Orsakasamhengið er svo einfalt og þetta er gott dæmi hjá hv. þingmanni því að þarna sér maður að tiltölulega lágar upphæðir geta haft mjög alvarlegar afleiðingar.

Hv. meiri hluti er að klára mál nákvæmlega eins og á ekki að gera það, engin fjárhagsleg úttekt, engin fagleg úttekt, menn fara út í aukinn kostnað við sameiningu sem á að skila sparnaði, a.m.k. í orði kveðnu endrum og eins. Það mun koma niður á þjónustu sem við viljum öll standa vörð um. Síðan ræddu menn hlut sem skiptir máli en er aukaatriði í þessu samhengi, nafnið á stofnuninni. Ég ætla ekki að blanda mér frekar í það.

Ef hv. þingmeirihluti keyrir þetta mál í gegn, eins og allar líkur eru á, óska ég stofnuninni velfarnaðar og vona sannarlega að menn geti unnið vel úr þeirri erfiðu stöðu sem stjórnendum og starfsfólki er komið í til að ná fram þessari hagræðingu út af húsaleigukostnaði, eins og hér hefur verið rakið. Ég fer þess á leit við hv. þingmeirihluta í mestu vinsemd að næst þegar við förum í vegferð eins og þessa verði málin ekki unnin eins og hér er gert. Við höfum ekki efni á því í þessu tilviki og við höfum ekki efni á því í verkefnunum fram undan. Ég bið hv. þingmenn að hugsa til þess að við sammæltumst um að breyta vinnubrögðum og læra af reynslunni. Ég held að við séum öll sammála um að það eigi að gera og þá er bara komið að því sem skiptir máli, ekki orðunum heldur efndunum.