140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

fundarstjórn.

[16:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er allsérstakt að fá skeyti inn á þingflokksfund þar sem þær upplýsingar koma fram að forseti hafi ákveðið að slíta þingfundi kl. 16.30 í dag án frekari skýringa en að fjárlaganefnd eigi að funda. Nú er það þannig að allmörg mál, þingmannamál, bíða þess að verða rædd, því að ekki eru stjórnarmálin að trufla okkur hér við þingstörfin. Við hljótum þar af leiðandi að óska skýringa á því hvers vegna þetta er, því að ég veit ekki betur en að fjárlaganefnd hafi fengið þann tíma, sem sagt utan hefðbundins þingfundatíma, sem nefndin hefur þurft. Mig langar því að spyrja hæstv. forseta hvort fjárlaganefnd muni ekki takast að halda þá áætlun sem nefndin hafði gefið og okkur var kynnt í þingflokkunum.