140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

kaup ríkisins á jörðum á Reykjanesi.

[15:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta eru viðskipti sem ég held að séu báðum aðilum hagstæð og leysa mörg mál í senn. Þau tengjast auðvitað fjárhagslegum samskiptum Reykjanesbæjar og ríkisins og í leiðinni fær ríkið uppgjör á áfallinni skattskuld. Það var að sjálfsögðu stuðst við mat og matsgerðir í þessum viðskiptum, og endanlegt kaupverð fyrir jarðhitaréttindin og landið sem fylgir með er innan þess verðbils sem mat ólíkra aðila setti á þessi viðskipti. Það er án efa hægt að upplýsa og fara yfir það mál í fjárlaganefnd ef svo ber undir.

Það einfaldar líka þessi samskipti að ríkið átti jarðhitaauðlindina á móti Reykjanesbæ í gegnum jörðina Stað. Það var ósamið um afnot af þeim hluta auðlindarinnar og ekki lágu fyrir þau skipti á auðlindinni hvað skyldi teljast tilheyra hvorri jörð um sig. Ríkið horfir þarna til langs tíma og ég fullyrði að þetta eru eðlileg viðskipti með þau heildarsjónarmið í huga sem hér áttu við.

Um það að hve miklu leyti þetta hefur fordæmi gagnvart öðrum slíkum viðskiptum skal ég ekki segja á þessu stigi mála. Endanlegt verð er samkomulagsniðurstaða en hún styðst við mat sem framkvæmt var og báðir aðilar urðu að lokum sáttir um niðurstöðutöluna. Ég held að það sé ekkert nema gott um þetta að segja og vona að Alþingi styðji það að af þessum viðskiptum verði.