140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þegar þessi vinna hófst árið 1999 voru það framsýnir stjórnmálamenn sem settu hana af stað. Þessi vinna hefur verið í tveim áföngum, sá fyrri var 1999–2005 og sá síðari 2005–2011 og nú er þingið að taka afstöðu til þeirrar miklu vinnu sem allir okkar helstu sérfræðingar hafa komið að sem hafa þekkingu á þessum málum.

Rétt eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sagði varð niðurstaðan úr þessari miklu 12 ára vinnu sú að sett var fram röð þar sem sá virkjunarkostir sem æskilegastur þótti var settur efstur og sá kostur sem æskilegast væri að friða settur neðstur. Þar inn á milli var kostunum raðað frá þeim æskilegasta og til þess óæskilegasta, getum við sagt, í virkjunarlegum skilningi. Þegar þessari vinnu var lokið lá fyrir að það þyrfti að setja einhvers staðar línu í þessa miklu röð, línu sem markaðist í fyrsta lagi af friðun, í öðru lagi af bið um verkefni sem menn væru sammála um að væru ekki fullrannsökuð og væri ekki nægilega mikil þekking til um, þyrfti að afla meiri upplýsinga um, og svo að lokum af nýtingarflokki.

Eðlilegast hefði verið að taka umræðu um málið á Alþingi og reyna að ná sátt á milli allra stjórnmálaflokka eða allra stjórnmálamanna um hvar þessar línur ættu að liggja. Aðeins þannig hefði verið hægt að tryggja sannarlega sátt í málinu og aðeins þannig hefði verið hægt að tryggja að skiptingin væri hafin yfir þann vafa sem hún þarf að vera hafin yfir. Þetta var ekki gert, heldur voru formenn verkefnisstjórnanna í rammaáætlun og fleiri aðilar fengnir til að taka þátt í einhvers konar skoðanakönnun. Sú skoðanakönnun leiddi í ljós aðra röð en þessi 12 ára vinna hafði leitt til. Skoðanakönnunin var gerð á grunni einhvers konar tilfinninga, ég ætla ekki að gera lítið úr því að tilfinningar ráði för í mörgum málum en hérna held ég að mjög röng leið hafi verið farin. Þessi skoðanakönnun varð síðan skoðanamyndandi fyrir þá sem tóku að sér það verk að flokka virkjunarkosti í þessa þrjá flokka sem ég nefndi áðan.

Eftir að þessu var lokið urðu enn ein mistökin þegar tveir ráðherrar, hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, fóru að togast á um virkjunarkosti og taka úr nýtingarflokki í biðflokk og jafnvel úr nýtingarflokki og niður í friðun eins og reyndin varð með Norðlingaölduveitu. Þar með var þessi gríðarlega mikla og kostnaðarsama vinna til 12 ára gerð að engu. Það er algjörlega ljóst að ef þessi þingsályktunartillaga fer óbreytt í gengum þingið í þeirri ósátt sem er um þetta mál verður það fyrsta verk annars konar ríkisstjórnarmeirihluta eða annars konar samsetningar á Alþingi að breyta þessu aftur. Sáttin sem átti að ná fram með því að setja málið í þetta vandaða ferli er orðin að ekki neinu. Þá hefði verið betur heima setið en af stað farið. Þetta sem ég hef farið yfir hérna eru í sjálfu sér gild rök fyrir því að þessi þingsályktunartillaga sé meingölluð.

Ef við skoðum einstaka kosti kemur í ljós að verið er að innleiða mikla áhættu í uppbyggingu á orkukostum hér á Íslandi. Ef við skoðum orkunýtingarflokkinn er meira og minna um að ræða háhitasvæði í þessari þingsályktunartillögu sem lagt er til að verði virkjuð og eins og margoft hefur verið bent á er það mun ótryggara en vatnsafl og mun minna vitað um þá kosti. Þeir kostir sem eru í orkunýtingarflokki eru, eins og þeim er raðað hérna, mun áhættumeiri út frá fjárhagslegum sjónarmiðum og orkuöflunarsjónarmiðum en það sem verkefnisstjórnin raðaði upp í upphafi. Jafnframt sjáum við að í orkunýtingarflokki lenda einungis tveir vatnsaflskostir. Annars vegar er um að ræða litla virkjun á Vestfjörðum sem áætlað er að verði í kringum 30 megavött og hins vegar er það stækkun á Blönduveitu.

Hvort tveggja eru hinir bestu kostir en þeir eru ekki í neinu samræmi við það ef í nýtingarflokki hefðu verið kostirnir í Þjórsá, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og ég tala ekki um Skrokkölduvirkjun. Svo eru Hágönguvirkjanirnar, það er að vísu háhitasvæði. Síðan eru teknir kostir ofarlega úr röðinni og settir yfir í verndarflokk. Þar er fyrst að nefna Norðlingaölduveitu og röksemdin hefur verið sú að Norðlingaölduveita sé partur af því svæði sem nú þegar er friðað í Þjórsárverum. Það hefur verið reynt að færa býsna haldlítil rök fyrir því. Norðlingaölduveita liggur 7 kílómetra suðvestur af friðaða svæðinu. 0,20 ferkílómetrar af grónu svæði munu fara undir vatn vegna Norðlingaölduveitu og lónið sem búið yrði til svo hægt væri að veita vatninu með fullnægjandi hætti yfir í Þjórsá er í kringum 5 ferkílómetrar. Við erum því raunverulega að tala um smávægilega röskun á umhverfi þar, 7 kílómetra fyrir utan friðaða svæðið í Þjórsárverum. Þá hafa menn sagt: Ja, Eyvafen fara að einhverju leyti undir vatn á einhverjum tímum ársins. Hinir sömu nefna þá ekki að Eyvafen fara iðulega undir vatn af náttúrulegum orsökum vegna þess að efst þar sem áin kemur niður í smásandgljúfur, getum við sagt, er hak þar sem oft verður ísstífla sem leiðir til náttúrulegrar stíflu á þessu svæði þannig að það flæðir inn í Eyvafen. Síðan er hægt að deila um gildi Eyvafenja sem náttúruverndarsvæðis en ég ætla ekki að fara út í það.

Ég ætla að segja að lokum af því að tími minn er búinn að sú sátt sem átti að verða um vernd og nýtingu landsvæða vegna orkunýtingar er ósátt og mun leiða til þess að þessi (Forseti hringir.) mál verða upp í loft um ókomin ár.