141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:36]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég sé þetta fyrir mér. Verður það þannig að það er persónukjör og viðhengið er kynferði? Menn mega kjósa svona margar persónur sem eru svona og svona margar persónur sem eru svona.

Þá er það náttúrlega ekki persónukjör. Persóna er bara persóna, hvort sem hún er kona eða karl. Er það ekki?

Ég er sammála hv. þingmanni. Ég veit að kaflanum var breytt, en kaflinn getur bara ekki staðið eins og hann er. Ég ætla að vona að þessi ágæta samkunda hér, Alþingi Íslendinga, sem hefur vald til að breyta þessu geri það. Það er búið að koma fram, bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu, að valdið sé hjá þinginu. Sérstaklega var það tiltekið margoft þegar hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, framsögumaður þessa frumvarps, var spurð í þaula um það. Hún tók af allan vafa. Kosningin var skoðanakönnun, ekkert annað, og valdið til að breyta er hjá þinginu. Það að vera með flókinn texta um kosningar og kosningalög þarna inni, mér finnst hann enn þá flókinn, er algjör óþarfi. Að flækja því inn í stjórnarskrá Íslands að það megi kjósa svona marga karla og svona margar konur til að halda einhverju jafnvægi er út í bláinn. Við hljótum öll að eiga sama rétt, hvort sem við erum konur eða karlar. Við erum öll persónur. Við erum öll einstaklingar. Ég get ekki séð þörfina fyrir þetta ákvæði.