141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að koma inn á það sem hv. síðasti ræðumaður, Skúli Helgason, benti á, að þetta mál væri þarft og mikilvægt að klára það. Ég hef reyndar ekki myndað mér neina skoðun á því, ég er að sjá þetta stóra frumvarp í fyrsta sinn og hef ekki komið neitt að undirbúningi málsins. Þetta er gríðarlega umfangsmikið og stórt frumvarp, ef ég má nota það orð, efnisríkt og mikið. Hæstv. ráðherra náði ekki að svara í andsvörum áðan spurningum um væntingar okkar til þess að klára málið.

Mér hefur oft fundist starfið þannig að hér eru sett mál á dagskrá — og þetta segi ég í tilefni af því sem fram undan er í störfum þingsins og vera má að það sé skoðun allra hér inni að það sé mikilvægt að klára þetta mál. Markmið frumvarpsins er gott og hæstv. ráðherra fór vel yfir það. Það kemur fram í skýringum og fyrstu greinum frumvarpsins hvert markmiðið er. Það er göfugt og mikilvægt en þá held ég að við verðum, sé þetta mál mikilvægt og gott og um það samstaða, einhvern veginn að breyta þeim vinnubrögðum sem eru fram undan miðað við þá dagskrá sem er búið að boða. Ég held að það liggi alveg fyrir.

Fari fram sem horfir, að menn ætli að keyra á það mál sem fram undan er, tillögur stjórnlagaráðs um breytingu á stjórnskipan landsins, munu þingfundir byrja fyrr, standa lengur og lítill tími vera fyrir fagnefndir til að vinna málin. Allir gera sér grein fyrir því í þessu máli að auðvitað þarf hv. allsherjar- og menntamálanefnd að hafa svigrúm til að sinna hlutverki sínu eins og henni er ætlað að gera. Ég efast heldur ekki um að hún muni gera það.

Ég vil að við íhugum að sé samstaða um þau mál sem við teljum mikilvægt að klára þurfum við að breyta um vinnubrögð.

Ég sagði í upphafi að ég hefði ekki náð að kynna mér þetta mál neitt efnislega, ég hef ekkert komið að vinnslu þess, þekki lítið til þess og er rétt að byrja að lesa það. Ég hlustaði af athygli á hæstv. ráðherra sem fór í ræðu sinni yfir það helsta sem kemur fram í frumvarpinu. Það er erfitt að gera það af vandvirkni og ekki hægt að ætla neinum að gera það í einni ræðu, svo veigamikið sem þetta mál er, 133 lagagreinar. Ég hef engar efasemdir um að hér sé um gott og mikilvægt mál að ræða, a.m.k. ekki eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra og hv. þingmanna sem hafa tekið til máls og verið í andsvörum.

Í andsvörum við hæstv. ráðherra spurði ég um umsóknirnar sem hefur fjölgað um 50%, dvalardagarnir tvöfaldast og þar með kostnaðurinn af því að kostnaðurinn er náttúrlega beintengdur við dvalardagana. Það gefur augaleið, og hæstv. ráðherra svaraði því ágætlega eins og ég skildi svar hans, að menn komast að ákveðnum þröskuldum, þ.e. ef í afgreiðslunni er of mikið álag á viðkomandi stofnanir dregur úr getunni og tefur niðurstöðu hvers máls fyrir sig eins og við þekkjum dæmi um. Það er ekki beint samhengi milli umsóknafjöldans og þess tíma sem tekur að afgreiða málin. Þó hefur verið brugðist við, eins og hæstv. ráðherra benti á, með því að bæta við starfsfólki til að liðka fyrir.

Það er líka rétt sem hefur komið fram, og það þekkjum við í gegnum umræðuna og þær breytingar sem við höfum séð og endurspeglast meðal annars í fjárlagagerðinni, að það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvort umsóknirnar verða 50, 100, 200 eða 300. Enginn getur gert sér grein fyrir því fyrir fram og ekki hægt að ætlast til þess.

Í sambandi við þetta mál langar mig aðeins að koma inn á svokallaða heimild til reglugerðar. Ég hef engar áhyggjur af því að hæstv. ráðherra, hver sem hann er, ætli að misbeita valdi sínu í þessum málum. Ég er ekki að láta liggja að neinu slíku en það vekur hins vegar athygli mína og mig rekur ekki minni til þess að hafa áður séð í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að það ráðist af kostnaðinum hvernig farið verður með þær heimildir og útfærðar þær reglugerðir sem hér um ræðir. Við vitum að síðasta greinin er yfirleitt um að ráðherra setji reglugerð um nánari útfærslu laganna sem um ræðir.

Ég taldi lauslega áðan að 47 af 133 greinum enduðu á textanum „ráðherra skal“ eða „ráðherra hefur heimild til að“ setja nánari reglugerð um útfærslu einstakra greina. Þess vegna velti ég því fyrir mér og vil koma því að í umræðunni að þetta er umhugsunarefni fyrir okkur hér. Þetta snýr ekki að hæstv. ráðherra sem persónu eða hvert ráðuneyti hans er, heldur að því að þingið er að mínu mati með opinn tékka. Við vitum að fjárveitingavaldið er hér en síðan þekkjum við það af reynslunni, a.m.k. samkvæmt reynslu minni á þessum stutta tíma, að fjáraukalögin þarf að reyna að stoppa til að hægt sé að ná tökum á ríkisfjármálunum. Þess vegna staldra ég við þennan punkt. Það kemur fram í umsögninni að kostnaðurinn fari, ef frumvarpið verður samþykkt, eftir því hvernig hæstv. ráðherra, hver sem hann er, útfærir reglugerðirnar sem heimilaðar eru hér. Þær eru gríðarlega margar og miklar.

Þetta er umhugsunarefni vegna þess að umræðan er búin að fara svo oft fram, menn hafa rætt um að setja rammafjárlög utan um hvert ráðuneyti og svo er reynslan allt önnur. Rammafjárlögin virka ekki, hafa ekkert virkað og ráðuneytin hafa ekki staðið við þær skuldbindingar og þann niðurskurð sem viðkomandi ráðuneyti á að gera. Þetta þekkjum við af afgreiðslu fjáraukalaganna og það er hægt að telja upp mjög mörg mál því til staðfestingar. Ég tel mig ekki þurfa að gera það þar sem við þekkjum það úr umræðunni. Ég staldra við það hvort fjárveitingavaldið sé of mikið fært til framkvæmdarvaldsins og ítreka að þetta á ekki við um núverandi hæstv. ráðherra, þetta getur auðvitað átt við um alla hæstv. ráðherra sem munu gegna þessu embætti ef frumvarpið verður samþykkt.

Það er ekki ætlun mín að lengja þessa umræðu en ég ítreka þó það sem ég sagði í upphafi — hæstv. utanríkisráðherra var hér uppveðraður áðan og fagnaði málinu mjög — ef niðurstaðan verður að menn telja þetta mál mikilvægt og þurfi að klárast á þessu þingi hvet ég hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutann til að forgangsraða í þá veru að mikilvæg mál nái fram að ganga en setja ekki upp eitthvert skrípaleikrit síðustu vikur kjörtímabilsins.