141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi gjaldtöku og t.d. sjálfbæra þróun. Ég held að það geti orðið nokkuð flókið að tengja saman hversu hátt á gjaldið á að vera, byggt á hugmynd um sjálfbæra þróun. Ég fagna reyndar orðum hv. þingmanns Álfheiðar Ingadóttur um að það sé eiginlega sjálfgefið að það þurfi að breyta þessu. Ég hefði kosið, úr því að nefndin var búin að koma auga á það, að komin hefði verið einhvers konar tillaga um hvernig við mundum skipa því þannig að við getum rætt það hér við 2. umr.

Mér þykir nokkuð seint að fá þetta síðan í einhverjum lokabúningi við 3. umr. af því að ég held að það séu bara svo mörg atriði sem koma á inn við 3. umr., t.d. Feneyjanefndin og þetta mál. Ég heyrði það hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur áðan að hún tók undir með mér a.m.k. í nokkru varðandi þær hundraðstölur sem þyrfti til þess að kalla hér fram atkvæðagreiðslu, ég held þetta verði bara svo mörg atriði sem við þurfum að taka inn við 3. umr. að það verði eiginlega að endurhanna 3. umr. og segja að hún sé áframhaldið af framhaldi 2. umr. Kem ég þá aftur að þeirri hugmynd sem ég reifaði áðan, að gert verði hlé á 2. umr. á meðan reynt er að koma einhverju skikki á þetta.

Hvað varðar hugmyndina um gjald og gjaldtöku er vandinn sá að sama hvernig þetta verður orðað verður alltaf vandamál að framfylgja því þegar það er komið inn í stjórnarskrá, það verður alltaf vandamál. En í það minnsta held ég að hugmyndin um fullt gjald sé algjörlega vonlaus, að það gangi bara ekki upp að setja það þannig fram.

Auðvitað þarf að skoða vel hvort menn geti umorðað það með einhverjum hætti. Það mun hafa gríðarlega áhrif á efnahagslíf þessarar þjóðar hvernig þessi setning er orðuð. Það er verkefni sem við þurfum að vanda okkur við og gefa okkur tíma því að ekki verður (Forseti hringir.) hlaupið að því að breyta því þegar það er komið inn. Ef við gerum það vitlaust mun það hafa alveg skelfileg áhrif á (Forseti hringir.) efnahagslíf okkar.