141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þingmaður einmitt að því sem mjög margir þeirra sem komu fyrir þær nefndir sem ég sit í, velferðarnefnd og atvinnuveganefnd, minntust á og það var þetta: Upptalning á tilteknum réttindum, svo góð og gild sem þau kunna að vera, kann að leiða til einhverrar gagnályktunar um það sem ekki er nefnt, að réttindagæsla gagnvart þeim atriðum eigi þá ekki við. Ég á ekki von á því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi hugsað það þannig. En þetta verklag, þessi aðferðafræði, leiðir einfaldlega af sér ákveðna óvissu.

Í öðru lagi nefndi hv. þingmaður ákvæðið um að allir eigi rétt til þess að semja um kaup og kjör. Það hljómar ekkert illa. En það er mat aðila vinnumarkaðarins að það gæti þýtt það að núverandi fyrirkomulagi á okkar vinnumarkaði yrði gjörbreytt í átt til þess sem við þekkjum í Bandaríkjunum, frá því norræna módeli sem hér hefur viðgengist meginhluta 20. aldarinnar (Forseti hringir.) og það sem af er 21. öldinni. Er það þetta sem menn eru að leita eftir? Ég á ekki von á því en það þarf auðvitað að taka (Forseti hringir.) af öll tvímæli.