141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Hér ræðum við hina meintu sáttaleið sem var lögð hér fram án þess að búið væri að leita sátta frá þinginu og því er þessi leið orðin að ófæruferð um fjallabak. Það er rétt að halda því til haga að þrátt fyrir að viljinn sé göfugur hjá þeim sem lögðu þessa tillögu fram er þessi aðferð samningatækni lituð af viðvaningshætti og ofmati á stöðu. Þess vegna erum við í öngstræti og það er lítilmannlegt að kenna þingmanninum Margréti Tryggvadóttur um að tillagan er pikkföst í ósátt.

Forseti. Síðan þingið fékk til meðferðar heildarendurskoðun að stjórnarskrá virðist sem þingmenn hafi misskilið hlutverk sitt í þessu ferli. Því er ekki úr vegi að útskýra það nákvæmlega.

Í fyrsta lagi hefur þessi stofnun, Alþingi Íslendinga, aldrei verið fær um heildstæða endurskoðun stjórnarskrárinnar þrátt fyrir ýmsar tilraunir til þess í ein 70 ár. Vegna þeirrar vangetu sem liggur í hlutarins eðli var ákveðið að gera hið eina rétta, að útvista verkinu til almennings, enda á engin nútímastjórnarskrá að verða til öðruvísi en frá almenningi. Þetta er samfélagssáttmálinn okkar. Þetta er sá rammi sem þjóðin setur um stjórnsýslu landsins, en ekki er síður mikilvægt að þessi nýja stjórnarskrá endurspeglar hvernig við viljum vera sem þjóð. Stjórnarskrá á einmitt að spretta upp í grasrót samfélagsins, vera klædd í lagatexta á mannamáli og síðan eru verkfræðingar lagatexta fengnir til að kanna hvernig sá rammi verður sniðinn að núgildandi lögum og reglugerðum.

Í öðru lagi ber að benda á eftirfarandi staðreyndir: Það var nægur tími og er enn til að afgreiða þetta mál ef vilji væri fyrir hendi meðal meiri hlutans. Við þingmennirnir 33 sem fólum þjóðinni að gefa okkur skilaboð um hvort hún væri sátt við verk stjórnlagaráðs eigum að hafa manndóm í okkur að tryggja þessu sinn eðlilega farveg og klára 2. umr. Það er hægt að marka þessu þann tíma sem eðlilegt telst til að ræða um stjórnarskrána okkar nýju. Síðan getum við, ef nauðsyn ber, gert nauðsynlegar breytingar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ef huga þarf að einhverjum tækniatriðum.

Okkar verk var aldrei að fara í efnislegar breytingar. Þessu hafa þingmenn gleymt. Við erum núna komin í þá stöðu að verið er að véla um það í bakherbergjum formanna flokkanna hvernig eigi að úthluta auðlindum þjóðarinnar. Það var aldrei okkar hlutverk. Okkar hlutverk var að kanna hvort það væru tæknilegir gallar. Við vissum öll að við værum vanfær um að takast á við hin pólitísku deilumál. Þess vegna var þjóðinni falið verkið. Og það er vert að hafa það í huga, þó að það hafi komið margoft fram hér, að ein af spurningunum sem var lögð fram fyrir þjóðina var nákvæmlega svona: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? Hversu margir sögðu já? 83% sögðu já við tillögunni sem stóð í textanum, í textanum sem við lögðum fyrir þjóðina og er kallaður hin nýja stjórnarskrá. Það eru tillögur stjórnlagaráðs og eftir þeim ber okkur að fara.

Það var ekki okkar hlutverk að sitja núna í einhverjum herbergjum, í sölum þingsins, og tala um útfærslu á þeim tillögum. Það er búið að ákveða það. Ef það er eitthvað sem er alveg kristaltært um hver vilji þjóðarinnar er er það nákvæmlega það sem stóð í tillögum stjórnlagaráðs og var lagt í dóm þjóðarinnar. 83%, það eru gríðarlega skýr skilaboð.

Mér finnst að við getum ekki endað þetta merkilega ferli á þennan máta og þess vegna býð ég lausn sem ég held að við ættum alveg að geta höndlað á þessum vinnustað, lausn sem ég hef reyndar rætt en talað fyrir fyrir daufum eyrum nýju ungu formannanna sem nú funda án fulltrúa Hreyfingarinnar einhvers staðar í þessu húsi. Formennirnir hafa ekki séð tilefni til að ræða við mig né vilja koma til móts við neinar tillögur að lausn frá minni hendi. En lausnin sem ég ætla að leggja til er eftirfarandi:

Við afgreiðum mannréttindakaflann og þær fimm greinar sem þjóðin var sérstaklega spurð um álit á í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Mér finnst gríðarlega brýnt að við höldum okkur eins nálægt og mögulegt er við þær fimm spurningar sem lagðar voru fyrir þjóðina því að spurningarnar voru mjög skýrar og það var mjög skýrt sem stóð í tillögunni að nýrri stjórnarskrá. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það. Það er líka mjög gott að hafa í huga að við erum stödd í miðri 2. umr. um stjórnarskipunarlög, en ákveðið var að setja tillögur hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar á dagskrá í stað umræðu um stjórnarskipunarlög.

Tökum það mál sem við erum að ræða um núna tafarlaust af dagskrá, gerum fundarhlé og komum okkur saman um að fara ekki í þá hættulegu vegferð að meðhöndla þjóðaratkvæðagreiðsluna eins og skoðanakönnun. Gera þingmenn og landsmenn sér yfir höfuð grein fyrir hvers konar fordæmi við erum að setja? Gera þeir það? Alveg örugglega ekki því að þingsalurinn er nánast tómur, eins og hann er búinn að vera í dag, sem er hryggilegt. Ég sé til dæmis ekki einn einasta ráðherra í þingsalnum og ekki sé ég ungu spræku formennina því að þeir eru örugglega of uppteknir við að tala hver við annan án aðkomu Hreyfingarinnar.

Forseti. Mig langar að fólk geri sér grein fyrir því hversu hættuleg þessi vegferð er fyrir lýðræði okkar. Hún er svo hættuleg út af því að það er önnur þjóðaratkvæðagreiðsla sem bíður okkar eftir — ja, það er spurning hvenær, en hún er ekki í það fjarlægri framtíð að við getum hunsað það sem við erum að gera í dag. Við erum á hættulegri vegferð, frú forseti, og ég held að þingmenn og landsmenn geri sér ekki grein fyrir hvað við erum að gera og hvers konar fordæmi við erum að setja.

Ég veit ekki betur en að við séum í miðjum viðræðum um inngöngu í ESB. Ef við ljúkum þeim samningaviðræðum og förum svo með samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu er nánast ómögulegt að krefjast þess að sú atkvæðagreiðsla verði virt. Þá verður farið í sömu leikfimina, að telja hve margir mættu á kjörstað og þjóðin verður upp á stjórnarfarið komin gagnvart því hvernig skoðanakönnunin verður túlkuð. Það finnst mér mjög alvarlegt. Ég velti fyrir mér hvort samþingmenn mínir og aðrir spekúlantar geri sér grein fyrir því á hvaða vegferð við erum. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af gangi mála í þinginu. Og það er meðal annars þess vegna sem ég treysti mér ekki til að styðja þá leið sem við ræðum núna út af því að sú leið tryggir ekki að neinu leyti að sú tillaga að stjórnarskrá sem við lögðum í dóm þjóðarinnar og hefur verið unnið að á mjög góðan máta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði að veruleika. Ég hef treyst meiri hluta nefndarinnar fyrir því verki og hef ekki orðið fyrir miklum vonbrigðum. Að sjálfsögðu hefur ferlið ekki verið hnökralaust enda erum við að gera þetta í fyrsta skipti. Það komu gríðarlega miklar árásir á það frá fólki sem hafði í öllu þessu ferli tækifæri til að koma með athugasemdir í tæka tíð svo hægt hefði verið að taka tillit til þeirra ef ástæða væri til. Þrátt fyrir það tók meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tillit til ábendinga og tók sér þann tíma sem þurfti til að verða við þeim ef þær voru tæknilegs eðlis. Við höfðum lagt tillögu stjórnlagaráðs í dóm þjóðarinnar og þar af leiðandi, þar sem það var mikill meiri hluti fyrir því að við mundum hafa þær sem grunn að stjórnarskrá okkar, var mjög erfitt að fara í einhverjar efnislegar breytingar.

Núna er staðan sú að ekkert bindur hendur næsta þings til að nota tillögur stjórnlagaráðs sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Ég hef heyrt það frá formanni Sjálfstæðisflokksins að honum finnist engin ástæða til að breyta mannréttindakaflanum, ekki nein, hann er bara fínn eins og hann er. Ég hef líka heyrt frá formanni Framsóknarflokksins að honum finnist þessi sáttatillaga ekkert binda hendur þeirra, ekki neitt. Enda hafa formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks talað fyrir því að það eigi bara að koma yfirlýsing frá formönnunum. Það eru þeirra tillögur að sátt.

Núna veltir maður fyrir sér, af því að Hreyfingin fær ekki aðkomu að þessum samningsviðræðum, um hvað er verið að véla. Þetta er í hæsta máta óeðlilegt, mjög óeðlilegt. Það vildi svo til að mitt hlutverk var að vera þingflokksformaður og ganga á formannsfundi á fyrsta ári mínu sem þingmaður. Þá vorum við ekki með lítil mál í fanginu heldur, við vorum með ESB og Icesave, en aldrei hef ég orðið fyrir öðru eins eins og einmitt núna um það málefni sem við höfum stutt ríkisstjórnina hvað mest í og komið með tillögur og lausnir. Okkur er bara haldið utan við þetta. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Þetta er skammarlegt.

Það skal hafa það á hreinu að þó svo að við höfum stutt ríkisstjórnina um málefni sem við erum sammála um styðjum við ekki svona vinnubrögð og við höfum ekki stutt ríkisstjórnina per se. Við höfum heldur ekkert verið stuðningsmenn Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins þótt við höfum unnið með þeim mjög dyggilega í Icesave af heilum hug. Við verðum að koma okkur úr þessum skotgrafahernaði, ég þoli hann ekki, frú forseti.

Við erum sem sagt komin á þann stað að með því að samþykkja þessa tillögu — sem mér finnst hættuleg — til sátta um stjórnarskrána erum við á sama tíma að segja að þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október sé bara skoðanakönnun og það finnst mér agalegt. Ég held að fólk skilji þetta ekki alveg. Það eru örfáir þingmenn hérna í húsinu sem skilja þetta og þrír þeirra af kannski fimm sitja í þingsalnum. Mér finnst það mjög hryggilegt.

Ætla þingmenn sem vinna að því hér leynt og ljóst að koma sér undan því að afgreiða í það minnsta mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og spurningarnar fimm að færa slíka hefð yfir á næsta þing? Treystir nokkur maður þá á að þjóðaratkvæðagreiðslur verði virtar? Er þá ekki bara best að hætta að leggja mál í dóm þjóðarinnar og kaupa frekar ódýrari skoðanakannanir sem hægt er að túlka eins og nú er verið að gera við gjörninginn 20. október sl.? Er það ekki ódýrara, eigum við ekki bara að fá okkur einhverjar Gallup-kannanir í staðinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur, þær eru nú svo áreiðanlegar?

Það er ekki hægt að kenna einum þingflokki eða stjórnarandstöðunni um ófarirnar eftir að málið kom á þing. Nei, þetta er skömm þingsins í heild sinni, þetta er skömm forseta þingsins, sem hefur leynt og ljóst unnið gegn því að málið fengi eðlilega afgreiðslu.

Forseti. Gleymum því ekki að það var ekki málþóf hafið um málið á meðan það var í 2. umr. Umræðan var mjög málefnaleg og gagnleg, lærdómsrík og yfirveguð. Ósáttin kom ekki í málið fyrr en sáttaleiðin var farin, sáttaleiðin sem lögð var fram án sátta við þrjá af flokkunum innan þingsins. Og það er ágætt að halda því til haga að Guðmundur Steingrímsson er ekki þingmaður Bjartrar framtíðar heldur utan flokka og státar ekki einu sinni af þingflokki innan veggja þings, þannig að tillaga tveggja formanna og eins utanþingsþingmanns var lögð fram án þess að sættir hefðu náðst við aðra þingflokka. Sátt sem slík næst ekki fram ef fólk hleypur í fjölmiðla án þess að hafa skapað nokkra samningsafstöðu.

Forseti. Ég vil finna lausnir og hef boðið fram lausn úr þessu öngstræti. Mér er til efs að á mig verði hlustað. Það sem er að gerast hér er ekki ný tegund af stjórnmálum heldur hefðbundin gamaldags aðferðafræði sem mun leiða af sér þá niðurstöðu að tillaga að nýrri stjórnarskrá verður að engu. Því skora ég á mína ágætu samþingmenn að sýna þjóðinni svart á hvítu hver afstaða viðkomandi þingmanna er gagnvart nýrri stjórnarskrá með því að við afgreiðum það sem ég hef lagt til í atkvæðagreiðslu áður en við rjúfum þing. Ég held nefnilega að það séu ekki lengur neinar getgátur um það að hér er ekki meiri hluti fyrir nýrri stjórnarskrá byggðri á grunni tillagna stjórnlagaráðs. Ég veit ekki hvernig því er háttað meðal annarra þingmanna en ég vil ekki fara héðan fyrr en það liggur ljóst fyrir. Mér finnst að þau 67% kjósenda sem greiddu atkvæði með því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar fram til grundvallar eigi rétt á að vita hverjir eru tilbúnir að greiða þeim tillögum atkvæði sín og hverjir ekki. Við erum að sigla inn í kosningar og fólk verður að fá að vita hverjir svíkja sína huldumey.

Það er ekki bara þannig fyrir okkur komið að við höfum ekki dug í okkur til að virða það umboð sem okkur var falið til að koma nýrri stjórnarskrá í þann farveg að næsta þing sé eins bundið og hægt er til að koma því til þjóðar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum líka vanfær um að laga verklagsreglurnar sem við vinnum eftir. Það hefur ekki tekist að laga þingsköpin á þann veg sem gerir málþófsmisnotkun erfiðari og ekki hefur okkur tekist að klára að setja okkur siðareglur. Við erum sennilega að fara að slá met í vanhæfni og lítill sómi að þessu þingi okkar sem ég batt svo miklar vonir við að yrði þingið sem gæti endurunnið traust og trúnað þjóðarinnar.

Nei, þetta þing hefur trekk í trekk fengið í fangið niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna sem það hefur gert sitt besta til að hunsa. Þetta þing verður sett í sögubækurnar sem þing heigulsháttar og reiðuleysis, hringleikhús fáránleikans, í stað þings sem hlustar á hjartslátt þjóðar sinnar, sem hefði getað skapað sátt og samhug um stóru málin. Nei, hér eru tungurnar blóðugar og heiftúðugar, sverðin eru beruð og ekkert lát á vopnaskakinu.

Forseti. Ég legg til lausnamiðaða leið. Ég hef verið harðorð og mér þykir það leitt og ég vona að ég hafi engan sært. Ég veit að flestir eru að reyna að gera sitt besta en þeir eru margir hér sem eiga erfitt með að koma sér upp úr hinum pólitísku gröfum. Ég hef með þessari ræðu ef til vill gerst sek um hið sama. Ég legg til lausn. Vilja fleiri koma með mér í þá vegferð? Ég veit að vegferðin að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu getur ekki verið sú rétta. Hvað getum við gert til að fara af þessari villuvegferð? Getum við prófað að hugsa út fyrir rammann og byrjað á vegferðinni saman, öll sem eitt? Líka þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins? Það er engin skömm að því að virða þjóðaratkvæðagreiðslu, við ættum að vera stolt af því að fá svo skýra leiðsögn og geta nýtt okkur dómgreind þeirra sem þáðu boðið og veittu okkur vegvísi og ljós á þessari torsóttu leið.