143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014. Ég vil byrja á því að segja að mér hefur fundist umræða nokkuð góð í dag, málefnaleg og fróðleg í alla staði. Ég held að í upphafi sé mjög mikilvægt að við áttum okkur aðeins á þeirri stöðu í ríkisfjármálum sem við erum að glíma við. Staðreyndin er sú að áætlað er að halli ríkissjóðs á þessu ári verði um 30 milljarðar. Þegar þessi ríkisstjórn tekur við gera gildandi fjárlög ársins ráð fyrir nánast hallalausum fjárlögum eða þar um bil, með eilitlum halla. Þarna erum við því að horfa upp á gríðarlega breytingu frá því sem samþykkt var í lok síðasta kjörtímabils á síðasta ári síðustu ríkisstjórnar.

Aðeins var tekist á um þetta á sumarþinginu, hvort menn hefðu haft vitneskju um það o.s.frv., en staðreyndin er engu að síður sú að það blasir við og lítur út fyrir að um 30 milljarða halli verði á ríkissjóði á þessu ári. Staðreyndin er sú að það er okkur öllum fyrir bestu að taka á þeim halla sem fyrst vegna þess að það er ekki neinni þjóð, ekki neinu fyrirtæki eða einstaklingi gott að reka sig á yfirdrætti. Þegar við horfum svona á stöðuna verðum við að horfa á öll útgjöld ríkisins í því sambandi og velta því fyrir okkur hvort fjármagnið sem við erum að veita til þessara verkefna sé þannig að það standi undir vaxtakostnaði ríkisins.

Við þurfum líka að horfa til þess að hagvaxtarspár reyndust verri en spár gerðu ráð fyrir. Frumvarpið sem við erum með núna, fjárlagafrumvarpið, gerir ráð fyrir 2,7% hagvexti. Það eru hagvaxtarspár frá því í júní. Ég hef áhyggjur af því að þar sé of jákvæð hagvaxtarspá af því að stöðnunin er enn til staðar í atvinnulífinu, það er ekki komið nægilega vel af stað. Við höfum horft upp á, og það hefur meðal annars verið staðfest í ræðum þingmanna núverandi stjórnarandstöðu, að það þarf að koma atvinnulífinu af stað. Það hlýtur að vera stóra verkefnið af því að við verðum að efla atvinnulífið. Ef það ætti að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir eitthvað í þessu frumvarpi væri það hugsanlega að ekki sé nægilega mikið gert í því til að efla atvinnulífið vegna þess að við verðum einfaldlega að efla atvinnulífið til að auka tekjurnar og með því eflum við meðal annars skattstofnana. Því miður hefur maður ekki orðið var við mikla gagnrýni hvað það snertir.

Það er hafist handa við lækkun tryggingagjalds. Það er mjög mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut. Svo er mjög mikilvægt að leitað sé fleiri leiða til að efla atvinnulífið og að ríkisvaldið komi til móts við fyrirtæki, innlend og þá aðila sem vilja fjárfesta hér á landi.

Það er ýmislegt sem er mjög jákvætt í frumvarpinu eins og til að mynda bótagreiðslur sem eru að hækka þar sem framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar eru aukin sem nemur fimm milljörðum vegna ýmissa breytinga á kjörum og réttindum þessa hóps. Því til viðbótar vaxa þau útgjöld um 3,4 milljarða vegna fjölgunar bótaþega og verðbóta á lífeyri. Útgjöld aukast því um 8,4 milljarða.

Þarna erum við að veita fjármuni til þeirra sem minna mega sín eða erum réttara sagt að leiðrétta kjör þessa hóps. Það er gríðarlega mikilvægt skref og báðir stjórnarflokkarnir sögðu að það yrði eitt af þeirra fyrstu verkum ef þeir kæmust til valda.

Það er annað sem er einnig mjög jákvætt og það er sérstakur bankaskattur sem hefur verið talsvert til umræðu í dag. Ég verð að segja að mér finnst mjög sérstakt að hlusta á menn tala um að ekki hafi verið hægt að setja þennan skatt á á sínum tíma og það sé fyrst núna sem mögulegt er að gera það vegna þess að ekki hafi verið hægt að skattleggja þrotabúin fyrr.

Það er ekki einungis verið að útvíkka þennan skatt, það er líka verið að hækka skattprósentuna úr 0,041% í 0,145%. Það er verið að hækka skattprósentuna. Það hefur ekkert að gera með þetta skattandlag sem verið er að tala um þarna.

Í ljósi þess hvernig stjórnarandstaðan hefur talað til að mynda varðandi veiðigjald, sem er reyndar önnur umræða því að þar var verið að hækka þá sem stunda uppsjávarveiðar en lækka þá sem stunda bolfisksveiðar vegna þess að þeir töldu að litlu útgerðirnar gætu ekki ráðið við þetta veiðigjald, hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju var fyrri ríkisstjórn að afsala sér þeim tekjum ár eftir? Af hverju afsalaði hún sér tekjunum ár eftir ár?

Það liggur ljóst fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur kjark til að taka á kröfuhöfum föllnu bankanna. Það liggur ljóst fyrir að sitjandi forsætisráðherra sem hafði kjark til þess að standa í lappirnar í Icesave-málinu mun hafa kjark til að taka á þrotabúum föllnu bankanna. Það liggur ljóst fyrir, m.a. með þessari ákvörðun, og ég er nánast viss um að þótt stjórnarandstaðan komi fram núna og segist styðja það hefðum við ekki séð hana ganga fram á þennan hátt ef sú ríkisstjórn sem var hefði setið áfram. Ég leyfi mér að fullyrða það vegna þess að allt síðasta kjörtímabil horfðum við upp á þjónkun við kröfuhafa föllnu bankanna.

Þetta er gríðarlega mikilvægt og mjög góðs viti fyrir það sem fram undan er og sýnir að full ástæða er til að treysta forustu þessarar ríkisstjórnar mjög vel þegar kemur að samningum við kröfuhafa föllnu bankanna og til dæmis við afnám gjaldeyrishafta í framhaldinu.

Staðan er mjög þröng. Það hafa flestallir sem hafa talað hér í dag, sama hvort þeir eru hluti af stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu, talað um að staðan sé mjög þröng í ríkisrekstrinum. Það liggur alveg ljóst fyrir að við þær aðstæður er mjög margt sem þarf að skoða og þyrfti að bæta fjármunum í.

Við verðum þó að hafa hugfast að fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að ríkissjóður sé rekinn hallalaus. Þegar við horfum á það hvernig við ætlum að bæta fjármunum inn í ríkisreksturinn eða inn í ákveðna þætti nefni ég til að mynda heilbrigðiskerfið og ákveðna þætti þar og ég vil segja að gríðarlega mikilvægt er að hefja sókn í heilbrigðismálum og tek undir með hæstv. forsætisráðherra frá því í gær. Það er gríðarlega mikilvægt eftir niðurskurð undanfarinna ára að verja heilbrigðiskerfið og aðrar grunnstoðir eins og löggæslu, menntakerfið og fleira.

Þá verðum við að horfa á það, og það hlýtur að verða verkefni fjárlaganefndar sem tekur við frumvarpinu, að ef auka á í ákveðna þætti, eins og t.d. til heilbrigðismála, hljótum við að leita eftir því að finna það fjármagn einhvers staðar annars staðar í frumvarpinu.

Það verður að vera svo að niðurstaðan sem verður samþykkt verði réttum megin við núllið. Það verður að vera svo.

Það eru fleiri þættir. Ég nefndi löggæslumálin, þar sem reyndar eru jákvæð teikn á lofti, samgöngumálin og framkvæmdir þar, byggðamál og fleira. Allir þeir þættir eru þættir sem fjárlaganefnd hlýtur að skoða í vinnslu frumvarpsins en það verður að vera algjörlega klárt að unnið sé þannig að leitað sé að fjármagni á móti.

Ég er þess fullviss að í frumvarpinu og í ríkisrekstrinum er á ákveðnum stöðum og ákveðnum sviðum enn hægt með kerfisbreytingum, almennri hagræðingu og öðrum siðum, að finna fjármagn til að veita inn í heilbrigðisþjónustuna.

Ég er mjög ánægður að heyra að stjórnarandstaðan talar ábyrgt hvað þann þátt snertir, bæði í umræðunum í dag og eins í umræðunni í gær. Það er til vitnis um að í sameiningu ætti að vera hægt að verja þessar grunnstoðir en það verður að gerast á þann hátt að við sækjum fjármagnið annað.

Við verðum að leita eftir að auka framleiðni í opinberum rekstri, sinna sömu þjónustu með lægri tilkostnaði til að skapa svigrúm til að setja inn í til dæmis heilbrigðiskerfi sem hefur verið svelt allt of mikið á undanförnum árum.

Heilt yfir er ég gríðarlega ánægður með að þetta fjárlagafrumvarp sé réttum megin við núllið. Ég hlakka mjög til þess að vinna það áfram í fjárlaganefnd og vonast til þess að sú niðurstaða sem verður samþykkt (Forseti hringir.) hér fyrir jól verði mjög jákvæð fyrir ríkissjóð og fyrir þjóðina alla.