143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki í hyggju að draga endilega úr útgjöldum til sjúkratrygginga almennings á Íslandi. Ég hef hins vegar mjög mikinn áhuga, eins og ég tel að sé þverpólitísk samstaða um á Alþingi, að breyta og setja lög um greiðsluþátttöku sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi og dreifa og jafna þeim byrðum sem af því leiða á sem flestar herðar. Það er ekki eðlilegt að við séum að karpa til dæmis með þeim hætti sem við höfum gert á síðustu dögum um gjaldtöku sjúklinga þegar við fáum síðan fréttir af því að einn einstaklingur, krabbameinssjúklingur í göngudeildarþjónustu, lendir í því að vera búinn að borga yfir 600 þús. kr., eins og Morgunblaðið flutti fréttir af í morgun. Það er eitthvað að í kerfinu öllu og það tekur tíma að breyta því.

Varðandi byggingaráformin um Landspítalann er ég einn af þeim sem studdu lagasetninguna í vor vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að endurbyggja þurfi að stóran hluta af því húsnæði sem Landspítalinn er í. En í lögunum sem samþykkt voru var gert ráð fyrir þremur byggingum; meðferðarkjarnanum, bílastæðahúsi og sjúklingahóteli. Það var engin forgangsröðun á þeim verkum, á hvaða verki ætti að byrja, en miðað við efnahag ríkissjóðs tók ég þá ákvörðun að setja fyrst af öllu sjúklingahótelið í farveg. Ég held að það sé heldur ekki vanþörf á því, meðal annars í ljósi þeirrar breytingar sem er að verða á íslenskri heilbrigðisþjónustu þar sem sérhæfingin er alltaf að þjappast á færri staði og fólk af landsbyggðinni, sem þarf að sækja sér þá sérhæfðu þjónustu sem meðal annars er boðið upp á á Landspítala, lendir óumdeilanlega sýknt og heilagt í þvælingi á milli húsa. Það á í vandræðum með að koma sér fyrir til þess að geta átt sem greiðastan aðgang að þeirri sérhæfðu meðferð sem það þarf að njóta. Ég tel því fullt tilefni til þess að rökstyðja þessa áherslu með þeim hætti.