143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

“ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum aldrei verið í þeirri stöðu að við höfum getað stýrt því hvaða tilskipanir koma frá Evrópusambandinu, ekki í upphafi EES-samningsins eða á nokkrum einasta tímapunkti. Og hv. þingmaður verður að fara rétt með þegar við tölum um þessar tilskipanir. Hv. þingmaður veit það nákvæmlega að ég hafði fullan stuðning innan flokks míns þegar ég tók hér upp málefni varðandi innstæðutilskipunina. Þó svo að ég hafi örugglega haldið flestar ræður um innstæðutilskipunina þegar ég reyndi hvað ég gat … (ÖS: … skilaði engu.) Nei, heyrðu, virðulegi forseti, við drápum hana. Þið komuð þessu í gegnum þingið, þið reynduð tvisvar eða þrisvar. (ÖS: Hver er að koma því gegn núna?) Hv. þingmaður er æstur núna vegna þess að hann veit að hann fer ekki alveg rétt með.

Fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn reyndi að fara með málið í gegn áður en það var komið í gegnum Evrópuþingið, þetta var í drögum þar, svo mikið lá á að koma þessari skelfilegu tilskipun í gegn. Þá sögðu ég og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins: Farið og beitið ykkur gegn því, talið þið máli Íslands meðan það er hægt, talið þið máli Íslands. Kannski hefði það ekki borið árangur, en þið gerðuð það ekki, þið reynduð það ekki. Það er það alvarlega í þessu. Núna sitjum við uppi með að þetta er orðin tilskipun. Staðan er miklu verri, hún var aldrei góð en hún er miklu verri núna.

Varðandi þróunina í Evrópu, nú hefur leiðtogi íhaldsmanna í Bretlandi neyðst til þess að fara fram á endurskoðun á aðild Breta að Evrópusambandinu af því að framsalið er orðið svo mikið til Brussel. Má sjá sömu stöðu víðs vegar í álfunni. Þessi umræða er í gangi í flestum löndum og, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, (Forseti hringir.) þetta er ekki lýðræðislegt bandalag og þetta vandamál fer ekki.