143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Færð hafa verið gífurlega sterk rök í þessari umræðu fyrir því að þjóðarátak um byggingu nýs Landspítala sé líklega það besta sem þetta þing getur sameinast um að hrinda í framkvæmd. Menn hafa skoðað málið frá ýmsum sjónarhornum í umræðunni. Það er tvennt sem ég vil leggja sérstaklega mikla áherslu á.

Faglega skiptir þetta mjög miklu máli. Landspítalinn er hátæknisjúkrahús sem hefur sannarlega staðið undir nafni. Það er sjúkrahúsið sem sér um okkur þegar við lendum í áföllum sem hugsanlega geta leitt okkur til dauða. Að því leytinu til hefur hann ekki einungis þjónað suðvesturhorninu heldur öllu landinu. Ástæðan fyrir því að honum hefur tekist að ná frábærum árangri í þeim efnum er sú að hann hefur í reynd orðið deigla sem í hafa runnið straumar frá öllum helstu og fremstu læknaháskólunum í heiminum.

Íslendingar hafa alltaf hleypt heimdraganum. Þeir hafa farið í allar áttir til þess að verða sér úti um menntun en þeir hafa alltaf komið hingað heim að lokum. Landspítalinn – hátæknisjúkrahús hefur borið gæfu til þess að geta laðað til sín nýtt vísindafólk, nýja lækna, nýja hjúkrunarfræðinga sem eru að koma frá Evrópu, frá Karólínska sjúkrahúsinu, frá frægu sjúkrahúsunum í Bretlandi, frá frægu sjúkrahúsunum í Bandaríkjunum, fólkið kemur hingað. Ísland hefur notið þeirrar sérstöðu umfram mörg önnur lönd að því leytinu að hérna hefur verið fremsta þekking hverju sinni einmitt á þessum spítala. Það er ástæðan fyrir því að þrátt fyrir erfiðleika, fjárhagsþrengingar og niðurskurð á Landspítalanum hefur hann haldið þeirri stöðu sem hann hafði fyrir tíu árum og hefur enn þá í dag þar sem tuttugustu algengustu banamein vegna slysfara eða bráðra sjúkdóma hafa lifun sem er fremst í heimi, þ.e. á bilinu topp 5 til topp 15. Þetta er Landspítalinn, svona vinnur hann. Hann hefur til þessa getað laðað að sér starfskrafta ungs fólks sem er að koma úr námi, sem hefur séð um okkur og þekkingin sem það færir með sér á verulegan þátt í því að við erum meðal langlífustu þjóða heims.

Þetta er líka landsbyggðarmál. Helstu rökin sem hefur verið beitt gegn þeirri framkvæmd sem hér er verið að leggja til eru þau að hún þjóni bara þéttbýlinu, þjóni bara suðvesturhorninu. Það er rangt. Þetta þjónar landsbyggðinni allri.

Nú höfum við, eins og ég rakti hér áðan, verið að ganga í gegnum erfiða tíma. Landspítalinn hefur ekki farið varhluta af því fremur en allar aðrar ríkisstofnanir. Það varð bankahrun í landinu og menn stóðu andspænis gríðarlegum erfiðleikum og það var niðurskurður þarna eins og annars staðar. En það var alltaf ljós fyrir enda ganganna, það var alltaf sameiginlegur draumur stjórnvalda og starfsmanna. Hann var að þegar þessu skeiði linnti — og því er að linna núna — mundi hefjast nýtt skeið, uppbyggingarskeið sem mundi leiða til þess að við byggðum nýjan spítala.

Ég held að þetta hafi verið það sem gaf starfsfólkinu við mjög erfiðar aðstæður kraftinn til þess að leggja á sig ómælt erfiði sem við skuldum því gríðarlegt þakklæti fyrir. Þegar þetta er tekið frá, þessi draumur, þessi von þeirra þá blasir við að menn sjá fram á að geta ekki haldið áfram þeirri framþróun sem þar hefur verið út af tvennu. Í fyrsta lagi sjáum við að unga fólkið hefur gefið það mjög skýrt til kynna, fólk sem er að mennta sig í þessum fræðum erlendis, að það getur ekki hugsað sér að koma aftur.

Í öðru lagi eru byggingarnar þess eðlis, þær eru orðnar svo gamlar og úr sér gengnar að þær bjóða ekki einu sinni upp á, eins og hv. 1. flutningsmaður rakti í inngangsræðu sinni, að nýjustu læknatæki séu tekin þar inn. Það eru atriði sem skipta mjög miklu máli. Þetta er spurning um faglega þróun og fagleg gæði Landspítalans til framtíðar.

Hitt sem hefur aðeins lítillega verið drepið á í umræðunni er að það hentar stöðunni í hagkerfinu gríðarlega vel að ráðast í þessa miklu framkvæmd einmitt núna. Hv. þm. Kristján L. Möller rakti að hægt væri að ljúka framkvæmdinni á fimm árum. Það vill svo til að það er akkúrat framkvæmd af þeirri stærðargráðu sem við þurfum inn í samfélagið núna. Með því að bera gæfu til þess að samþykkja þetta og ráðast í framkvæmdina með þeim hraða sem er hægt að gera tel ég að það mundi efla mjög þjóðarhag, glæða hagvöxt, skapa störf. Þetta mundi fullnýta þann slaka sem er í samfélaginu núna. Þess vegna held ég að þetta sé rétti tíminn.

Svo er spurning hvort hægt sé að finna einhverjar leiðir sem bræða saman ólík sjónarmið í þessum efnum. Menn hafa gert að umræðuefni hér þau viðhorf sem hv. þm. Ögmundur Jónasson reifaði í máli sínu. Vissulega er það svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett sig svolítið á ská. Sömuleiðis er það svo að stjórnarflokkarnir hafa ekki opnað á þetta nema hæstv. fjármálaráðherra sem opnaði glufu. Hæstv. ráðherra sagði fyrir skömmu síðan í svari við spurningu frá hv. þm. Kristjáni L. Möller að eina leiðin sem hann sæi í stöðunni miðað við það sem hann kallaði núverandi þrengingar ríkissjóðs — og geri ég ekki lítið úr þeim — væri að eyrnamerkja andvirði af sölu ríkiseigna til þessa. Og hví skyldum við ekki gera það? Það er enginn að tala um að selja fjölskyldusilfrið, það er enginn að tala um að selja útsæðið. En við eigum eigur sem við vitum að er líklegt að verði mikils virði á næstu árum.

Ég nefni eign okkar í Landsbanka Íslands. Ég er ekki að tala um að selja frá okkur bankann eða meiri hlutann en það dugar til þess að fara alllanga leið í þessu að selja hluta af honum, þó þannig að ríkið mundi halda mjög tryggum meiri hluta. Er ekki mögulegt fyrir þær nefndir sem um þetta fjalla að skoða hvort ekki sé hægt að bræða saman sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þeirra sem standa að þessari tillögu og líka stjórnarflokkanna, a.m.k. þess parts þeirra sem hæstv. fjármálaráðherra talar fyrir? Ég held það. Í framhaldinu mætti síðan skoða hvort ekki væri hægt að rökstyðja betur en menn hafa gert að framkvæmdin sé ekki bara fyrir þéttbýlið, eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir rakti svo ágætlega í sinni ræðu er þetta líka hagsmunamál fyrir landsbyggðina.

Það sem við þurfum auðvitað að tryggja samhliða þessari uppbyggingu er aðgengi að spítalanum og ekki bara með því að koma í veg fyrir að menn dragi einhverjar rauðar línur með því að setja upp sjúklingaskatt eða annað slíkt heldur með samgöngum. Við þurfum að tryggja að hvar sem menn eru staddir á landinu komist þeir klakklaust og mjög greiðlega á spítalann ef þeir verða fyrir áfalli. Það þýðir að sjúkraflutningar þurfa að vera í lagi. Þetta tvennt ætti að fullnægja þessum þörfum.

Menn hafa síðan rakið hinar fjármálalegu forsendur fyrir málinu, bæði hv. þm. Brynjar Níelsson og 1. flutningsmaður málsins. Þegar maður skoðar þær röksemdir virkar einhvern veginn borðleggjandi að það sé háskans virði fyrir ríkisfjármálin að leggja út á þetta haf. Menn hafa reiknað það út, og þær tölur eru ekki illa úr sér gengnar, að sparnaðurinn sem verður af því að ráðast í byggingu nýs spítala sé 3 milljarðar á ári sem fara að minnsta kosti, jafnvel þótt maður meti varlega orð og rök hv. 1. flutningsmanns, langleiðina með að borga vexti og afborganir.

Hvað er það þá sem eftir stendur sem er mótdrægt þessari ákvörðun? Það er voðalega fátt. Ég held að það sé misskilningur og ég held að hægt sé að eyða honum með því að rökræða málið á þeim málefnalega grunni sem menn hafa gert hér í dag innan viðeigandi þingnefnda, og þá held ég að það sé að minnsta kosti einnar messu virði að reyna að bræða saman þessi ólíku sjónarmið. Það skyldi þó ekki vera að stjórnarliðið sæi að þetta fellur að tilgangi þeirra um að láta hjól atvinnulífsins snúast örlítið hraðar?

Þessi framkvæmd þjónar einfaldlega hagsmunum allra, ríkisstjórnarflokkanna, stjórnarandstöðunnar, landsbyggðarinnar, þéttbýlisins og síðast en ekki síst okkur sem bíðum þess að eldast og vitum að ef við verðum nógu gömul lendum við alltaf í þeirri stöðu að þurfa að eiga líf okkar upp á náð þessa sjúkrahúss og gæði þess.