143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

staða landvörslu.

[13:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég heyri það hjá þeim sem hér hafa tekið til máls, hv. þingmönnum og líka hæstv. ráðherra, að ekki er ágreiningur um það að hér þarf að bæta úr, hér erum við að tala um gríðarlega mikilvæga starfsemi. Það er að vísu einn þingmaður sem telur að þetta megi leysa með aukinni löggæslu en ég held að almennt séu menn á þeirri skoðun að þetta snúist um bætta landvörslu, skipulag, aðstöðu, stígagerð og gerð innviða á okkar mikilvægu náttúrusvæðum.

Hæstv. ráðherra vísar í almennan niðurskurð og hagræðingarkröfu í ríkisrekstrinum. Við höfum stundum verið að ræða hvort það þurfi ráðherra í umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða ekki og þess vegna hef ég verið að velta því fyrir mér í fullri einlægni hvort hæstv. ráðherra hafi setið við borðið við fjárlagagerðina í umhverfisráðuneytinu og lagt til 40% niðurskurð á almennri landvörslu. Það er ekki hagræðingarkrafan á málaflokkinn í heild.

Mat ráðherrann það svo að þetta væri það sem gæti tekið á sig meiri niðurskurð en önnur málefni sem heyra undir ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála? Var það á grundvelli einhverrar úttektar, einhverrar yfirsýnar o.s.frv.? Ég get ekki neitað því að mér virðist, þegar ráðherrann kemur hér og gerir grein fyrir málunum, að ekki liggi fyrir nein stefna, engin sýn, heldur er bara sagt að það þurfi að skoða þetta vítt og breitt, hvernig eigum við að koma þessu fyrir o.s.frv.

Virðulegur forseti. Það er bráðavandi sem blasir við og það verður að halda utan um þessi svæði, ekki einhvern tímann í framtíðinni heldur í sumar. Við erum að tala um heilu svæðin þar sem landvörður er farinn heim klukkan fjögur, heim klukkan fimm og meira að segja svæði þar sem verður enginn landvörður.

Ég velti því fyrir mér (Forseti hringir.) og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því hér: Var það gert af yfirvegun og með opin augun (Forseti hringir.) að skera niður almenna landvörslu um 40%? Ég trúi því eiginlega varla.