143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þann 21. febrúar sl. óskaði ég eftir að eiga sérstaka umræðu við mennta- og menningarmálaráðherra um menningarsamninga og stöðuna sem þá var upp komin vegna þess að menningarráðin höfðu ekki fengið svör frá ráðuneytinu um áform og stöðu mála. Sú umræðubeiðni hefur þegar haft áhrif því að á undanförnum dögum bárust tíðindi af fjárframlögum og að þeim mun ég víkja betur á eftir.

Sem betur fer hefur skilningur samfélagsins aukist stórlega á mikilvægi menningarstarfs og skapandi greina við framvindu og viðgang samfélagsins til framtíðar. Eins og oft er virtist sem samfélagið vaknaði fyrst þegar fyrir lá að um raunveruleg áhrif væri að ræða á hagkerfið, að velsæld og vöxtur gæti líka átt rætur að rekja til sköpunar og öflugs menningarlífs eða að slík starfsemi gæti a.m.k. verið mikilvægur þáttur.

Því miður var það nokkurt frástef í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar að breyta áherslum frá skapandi greinum í áttina til meira gamaldags atvinnustefnu og oftar en ekki virtist sem það dygði að málin eða áherslurnar stöfuðu frá fyrri ríkisstjórn til að hætta verkefnum eða draga verulega úr fjárframlagi til þeirra. Þetta gildir meðal annars um umrædda menningarsamninga sem þurftu að sæta niðurskurði. Framlögin til menningarsamninganna lækkuðu um 23 milljónir eða um 10% á árunum 2013–2014 og er gert ráð fyrir sömu upphæð áfram allt til ársins 2017.

Ekki verður hjá því komist að nefna að á sama tíma og þessir samningar sæta niðurskurði úthlutar forsætisráðherra 200 millj. kr. með SMS-skilaboðum til þeirra sem eru honum þóknanlegir. Nú er staðan þannig 25. mars að enn er verulega óljóst hvernig verkefnunum reiðir af. Loks þessa síðustu daga hafa borist upplýsingar frá menntamálaráðuneyti um niðurskorin fjárframlög en það er erfitt að úthluta peningunum vegna þess að enn þá hafa ekki borist svör frá atvinnuvegaráðuneyti um menningartengda ferðaþjónustu. Borist hafa lausafregnir af því að þeir peningar verði felldir niður.

Menningarfulltrúar um allt land eru því enn í óvissu um menningarstarfsemi í héraði á sumri komanda. Þessi verkefni hafa verið mikilvæg af mörgum ástæðum. Þau eru sannarlega menningarmál en þau eru líka byggðamál. Þau eru félagslega mikilvæg því að þátttakan er gríðarleg og stuðlar að virkni og fjölbreyttu mannlífi um allt land. Fjöldi verkefna hefur verið og er enn í uppnámi, þúsundir bíða svara hvarvetna. Á Vesturlandi einu komu 120 umsóknir og á Suðurlandi 200.

Ég spyr: Af hverju dróst þetta? Þessi staða lýsir skilningsleysi á því um hvað byggðastefnan snýst, um hvað frjótt og öflugt mannlíf snýst. Auk þess birtist í raun alveg sérstakt skilningsleysi á stöðu landsbyggðarinnar.

Aðstaða menningarráðanna og menningarfulltrúanna er óþolandi auk þess sem framlög til þeirra sjálfra hafa verið skorin niður. Þannig hefur starfshlutfall menningarfulltrúa á Vesturlandi verið skorið niður um helming. Við hljótum að líta svo á að grundvöllur sé fyrir enn öflugra menningarlífi um landið vítt og breitt og að menningarsamningarnir séu einn af burðarásum slíkrar framtíðarsýnar.

Mikilvægur þáttur í menningarstefnunni er áherslan á samvinnu þar sem samningarnir byggja á virku samtali sem er nauðsynlegt að hafa opið, óhindrað og að það byggi á trausti. Ekki síður er mikilvægt að sveitarstjórnir, landshlutasamtök og einstök sveitarfélög séu opin fyrir samstarfi sín á milli þegar kemur að menningarmálum. Rétt er í því sambandi að nefna samvinnu sveitarfélaga við menningarstofnanir á landsvísu um einstök verkefni.

Virðulegur forseti. Í þeirri stöðu sem upp er komin, þ.e. að nú loks í mars eru komin svör frá menntamálaráðuneytinu en menn vita ekki hver staðan verður í ljósi þess að ekki hafa allir endar verið hnýttir, endurspeglast atvinnustefna sem gerir ráð fyrir fábreytni, stóriðju, stórvirkjunum og hefðbundnum stórkarlaáherslum í atvinnumálum. Stórkarlaáherslur koma nú víða fram, t.d. í nýrri tillögu Orkustofnunar, í totutillögu umhverfisráðherra, í geðþóttaráðstöfunum almannafjár, eins og nýleg dæmi sanna, og í niðurskurði og samdrætti í öllum þeim verkefnum sem lúta að menntun og menningu.

Sennilega er öflug mennta- og menningarstefna mikilvægasta byggðaaðgerðin yfir höfuð og órjúfanlegur þáttur í metnaðarfullri sóknaráætlun sem hafði verið í undirbúningi árum saman en hún er skorin niður í nýjum fjárlögum um 93,6%, en sú áætlun byggir á samstarfi sveitarfélaga og forgangsröðun heimamanna í atvinnumálum.

Stórkarlapólitíkin er í stórsókn og kemur fram í framgöngu hvers ráðherrans á fætur öðrum. Niðurskurður mennta- og menningarmálaráðuneytis á menningarsamningum við landshluta í fjárlögum ársins 2014 er umtalsverður og er því spurt: Hver er þróun framlaga atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins? Hver er fjöldi starfa sem glatast við niðurskurðinn? Hver er forgangsröðun ráðherra að því er varðar menningarstarfsemi úti um land? Af hverju hefur það dregist svona í menntamálaráðuneytinu að svara menningarráðum landshlutanna? Er vandinn sá að ráðherranum óx í augum að taka ákvarðanir um skiptingu fjárins? Er þetta einfalda verkefni, sem snýst um að skipta peningum milli landshluta, ráðherranum um megn? Af hverju tók þetta ráðherrann svona langan tíma? Af hverju var málinu ekki lokið fyrr en beiðni kom fram á Alþingi um sérstaka umræðu um það?