144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um það með hvaða hætti við stígum næstu skref í haftaafnáminu. Hér er spurt um mögulegan útgönguskatt. Ef til þess kæmi mundi koma fram um það mál á þinginu og við tækjum þá umræðu hér. Væntanlega þyrfti það mál að fá sinn tíma í þinglegri meðferð. Á meðan tillagan er ekki komin fram og er ekki til meðhöndlunar í þinginu finnst mér erfitt að bregðast beint við þeirri fyrirspurn sem að mér er beint, þeirri hvort þetta kynni að hafa einhver áhrif á möguleika innlendra fyrirtækja til að standa í skilum með erlendar skuldbindingar. Augljóslega getum við ekki sett fyrirtæki í eitthvert uppnám með að standa í skilum og höfum ekki gert það undir þeim höftum sem eru í dag.

Ég vek þó athygli á því að í dag erum við með höft og undanþágur þar sem fjármagnshreyfingarnar eru óheimilar og undir mögulegum breytingum á þessu værum við kannski með minni höft, ef svo mætti segja, vegna þess að gera þarf ráð fyrir því að áfram geti átt sér stað sambærilegar greiðslur og hafa átt sér stað hingað til.

Ég hef heyrt ýmislegt í umræðunni undanfarna daga. Ýmsu er slegið fram, það er eins og sumir haldi jafnvel að til standi að fara að gera vöruviðskipti við landið þungbærari og erfiðari. Ekkert slíkt er á prjónunum og aðalatriði málsins er að engin ákvörðun hefur verið tekin og það verður ekki fyrr en þingið kæmi að því sem slík ákvörðun kæmi til framkvæmda.