144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alltaf þegar menn ræða hugmyndir sem þeim finnast vera róttækar, eins og að leggja niður stofnun, fara menn í baklás. Það er eðli manna og það er náttúrlega þess vegna sem við sitjum uppi með stofnanir sem voru upphaflega settar á fót fyrir eitthvað allt annað. Menn breyta þá frekar algerlega hlutverki viðkomandi stofnunar því að það má alls ekki leggja hana niður einhverra hluta vegna, það þekkjum við.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að líta á þetta út frá eftirfarandi spurningum: Hvað viljum við að hið opinbera geri? Hvernig viljum við forgangsraða skattpeningunum? Hér er um að ræða 270 millj. kr. sem fara í viðkomandi stofnun. Er ekki kjörið að nýta háskólana í það að afla þeirrar þekkingar sem hv. þingmaður nefndi réttilega að þurfi að vera til staðar? Færi það bara ekki afskaplega vel saman og væri ekki hægt að gera það með minni fjármunum, alla vega einhvern hluta þess, og styrkja um leið háskólastarfsemina? Ég velti því fyrir mér.

Hv. þingmaður nefnir framtíðaráætlanir eða hugmyndir, það á örugglega við nútíðina líka, og á morgun verður það örugglega orðin fortíð því að þá verður komið fram eitthvað nýtt. Ég held að það hljóti að vera endalausir möguleikar í þessu, alveg óendanlegir. Það mjög spennandi að fara út í það og þá er enn meiri nauðsyn að huga að því hvernig best er forgangsraða skattpeningum þegar kemur að þessum málum. Þarna er endalaus uppspretta, allra handa nýsköpun. Hér er talað um að allt eigi að vera gjaldfrjálst sem snýr að því að borga með opinberu fé. Það á örugglega við um sveitarfélögin líka þegar er talað um deiliskipulag og aðalskipulag. Það er á hendi sveitarfélaganna. Það er allt saman mjög spennandi.

Við verðum að forgangsraða fjármunum hins opinbera. Það sem við notum í þessa stofnun notum við ekki í það sem við erum í orði kveðnu alla jafnan sammála um að eigi að vera í forgangi. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga.