144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

efling samtakamáttar þjóðarinnar.

[10:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mætti kannski rifja það upp fyrir hv. þingmanni að eitt stærsta deilumálið í íslensku samfélagi var það hvernig fyrri ríkisstjórn skildi við skuldavandann. Þess vegna var það eitt af forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar að taka á því máli. Er það almennt rætt hér í samfélaginu að meiri aðgerðir þurfi vegna skuldavanda heimilanna? Er fólk mætt á Austurvöll eins og það gerði reglulega á síðasta kjörtímabili til að mótmæla stjórnvöldum vegna aðgerðaleysis (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í: Já.) [Háreysti í þingsal.] í skuldavandanum? Nei, það er ekki mætt hér til að mótmæla aðgerðaleysi vegna skuldavandans. Það er ekki svo. Það er rangt. (Gripið fram í: Það var ekki …) Unnið hefur verið markvisst í að leysa þann vanda og það er til þess fallið að stuðla að sátt.

Evrópusambandsmálið. Stefna ríkisstjórnarinnar er í samræmi við vilja um 70% kjósenda sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Við getum líka rætt um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, það hefur aldrei verið slegið út af borðinu.

Stefna ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálinu er mun líklegri til að skapa sátt en það upplausnarástand sem boðið var upp á af fyrri ríkisstjórn. Það eru staðreyndir máls.

Á vinnumarkaðnum er það mjög mikið umhugsunarefni, ég tek undir með hv. þingmanni varðandi það atriði, (Forseti hringir.) að á sama tíma og hér mælist einn mesti vöxtur kaupmáttar í Evrópu skuli vera jafn mikil spenna á þeim markaði. (Forseti hringir.) Það er margt sem mætti segja um þá stöðu sem ekki er hægt að koma að í einu svari hér. En tökum höndum saman (Forseti hringir.) og reynum að leysa úr þessum vandamálum í stað þess að reyna að æsa þau frekar upp.