144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:05]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Verði það frumvarp að lögum verður afleiðingin sú að Bankasýslan verður lögð niður sem sett var með lögum nr. 88/2009. Maður spyr sig af því tilefni hvort það sé tímabært að leggja niður fyrirkomulag sem hefur reynst vel í alla staði og hefur verið hagkvæmt. Hér hefur Bankasýslunni helst verið talið það til ámælis hversu dýr hún hafi verið í rekstri en reikna má með að rekstur hennar kosti um 50–60 milljónir á ári. Þar er haldið utan um eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum sem hugsanlega eru að verðmæti 250–300 milljarðar, ómögulegt að segja, þannig að þetta eru 0,02%. Það tæki 50 ár að komast upp í 1% með þessum rekstrarkostnaði. Varla er hægt að sjá ofsjónum yfir því að þarna séu sérfræðingar og viðhald á þekkingu um að meta meðal annars með sem allra bestum hætti hvenær skynsamlegt sé að hefja söluferli á þessum eignarhlutum. Hingað til hefur þessi stofnun ekki talið ástæðu til þess og það má segja að sú ákvörðun hafi verið farsæl því að ríkissjóður hefur fengið mikinn arð af þessum fyrirtækjum og þau hafa eflaust hækkað í verði síðan Bankasýslan tók til starfa. Ég held að það sé eitt af því sem þurfi að velta fyrir sér. Er tímabært og er til bóta að eignarhaldið fari inn í það ráðuneyti sem sér um lagasetningu fyrir fjármálageirann? Þegar maður skoðar lögin um stofnun Bankasýslunnar, ágæta lesningu, sést í rökstuðningnum með þörfinni fyrir að starfrækja svona stofnun vitnað í ágæta skýrslu frá OECD þar sem farið er yfir það með hvaða hætti best sé að fara með eignarhluti ríkisins í ýmsum fyrirtækjum sem ríkið á og þá sé sú skoðun að verða ofan á að það sé heppilegast að það ráðuneyti sem fer með eignarhlutina í hinum ýmsu stofnunum, eins og sjúkrahúsum, virkjunum og bönkum, sé ekki það ráðuneyti sem setur síðan lögin um þá markaði sem að þessu lúta. Það væri óheppilegt að í fjármálaráðuneytinu væri bæði farið með eignarhaldið og lagasetningu um málefni þessarar stofnunar og bankanna. Það væri afturför að mínu mati og er nokkuð sem maður þarf að velta fyrir sér.

Svo er gagnsæið sem rætt hefur verið í fyrri ræðum. Í stað þess að vera með það fyrirkomulag þar sem ráðherra skipar stjórn Bankasýslunnar sem síðan skipar valnefnd sem síðar velur menn í bankaráðin mundi ráðherra, samkvæmt þessu nýja frumvarpi, skipa ráðgjafarnefnd beint sem síðan skipar stjórnir, m.a. þá væntanlega alla stjórn Landsbankans og allt bankaráðið sem er þá komið einu stjórnskipulagsstigi nær ráðherranum. Þó að maður treysti vissulega ráðherrum mjög vel er óheppilegt að taka þennan millilið í burtu. Sama hversu vel við treystum ráðherrum er þetta gríðarlega mikla vald bankanna og pólitískt vald yfirleitt ekki góð blanda og vont að þurfa að horfa á þennan aðskilnað minnka sem væri afleiðing af þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu er líka lagt til að Ríkiskaup skuli annast söluna á þessum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjunum þegar þar að kemur. Ég þekki ekki nógu vel til hjá Ríkiskaupum og veit ekki hvort þar er sérþekking á því hvernig skuli fara með sölu á hlutum í fjármálafyrirtækjum. Um það geta gilt ýmsar aðrar forsendur og önnur sjónarmið en með aðrar ríkiseignir þannig að það er líka annað sem maður hefði viljað fá aðeins betri innsýn í. Hér erum við hugsanlega að tala um 250–300 milljarða sölu sem réttlætir vissulega verulega sérþekkingu þegar verið er að fást við þetta. Ég veit ekki hvort hún er til inni í ráðuneytinu eða hvort hún er til hjá Ríkiskaupum. Maður veit að minnsta kosti að í Bankasýslunni, eins og hún hefur verið rekin til þessa, hefur verið samfella í þessu og þar er góð þekking. Í efnahags- og viðskiptanefnd höfum við fengið margar umsagnir frá Bankasýslunni um fjölda mála sem koma að þessum markaði. Þær hafa verið vandaðar og gagnlegar. Það yrði að vissu leyti eftirsjá ef þær yrðu ekki fleiri. Bankasýslan fæst við marga hluti og eitt af því sem ég vil líka vekja athygli á er að Bankasýslan annast samskipti ríkisins við fjármálafyrirtækin sem ríkið á hlut í og tengjast eigandaverkinu þannig að stjórnendur banka og fjármálafyrirtækja eru ekki í slíkum samskiptum við ráðherrann eða ráðuneytið. Ég held að þetta sé ágætisaðskilnaður og gott að halda honum.

Uppistaðan í þessu er sú að þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel. Það hefur verið farsælt og kostnaðurinn við það lítill og þess vegna hefur maður efasemdir um að það sé tilefni til að ráðast í þessar breytingar núna. Gagnsæið er mikilvægt og hugsanlega má auka það. Ég hefði hugsanlega tekið undir þau sjónarmið sem komu fram við stofnun Bankasýslunnar, að hugsanlega hefði mátt standa öðruvísi að skipun í stjórn Bankasýslunnar. Það væri kannski heppilegt að það væri ekki endilega með beinni aðkomu ráðherrans heldur einhvers konar aðkomu þingsins, enda eru eignirnar gríðarlega miklar. Áður en eignarhlutir í þessum bönkum eru seldir tel ég að málið eigi ávallt að koma fyrir þingið.

Það er ekki hægt að sleppa því að ræða það að flokksþing Framsóknarflokksins ályktaði um þessi atriði, m.a. það að betur færi á því að Bankasýslan annaðist áfram meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, m.a. til að tryggja áfram armslengdarsjónarmið og þá fagmennsku sem þar hefur verið. Fyrirkomulagið hefur reynst vel. Einnig ályktaði flokksþing Framsóknarflokksins um að Landsbankinn ætti að vera áfram í eigu ríkisins og starfræktur sem samfélagsbanki en í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að allt að 30% af eignarhlut ríkisins verði seld. Á báðum þessum forsendum hef ég efasemdir um það sem hér er stefnt að. (Gripið fram í: … Framsóknarflokksins …) Já, af minni hálfu og að minnsta kosti flokksþingsins þó að ég geti ekki talað fyrir alla framsóknarmenn eða alla þingmenn í því máli.

Ég vil aðeins að víkja að fákeppni á bankamarkaði. Á Íslandi eru þrír bankar sem eru samanlagt með meira en 90% markaðshlutdeild og hagnaður þeirra á síðasta ári var 80 milljarðar, og 60 milljarðar árið áður. Ef Landsbankanum yrði sett það markmið að tryggja kröftuga samkeppni á fjármálamarkaði yrði hluti þessa mikla hagnaðar eftir hjá viðskiptavinum, fólkinu og fyrirtækjunum í landinu. Kannski væri ávinningur landsmanna þá á bilinu 10, 20 eða jafnvel 30 milljarðar á hverju ári. Hver er ávinningurinn af því að selja 30% hlut í Landsbankanum? Er hann meiri eða minni? Ef maður reiknar þetta einfaldlega er hann miklu minni vegna þess að jafnvel þó að ríkið mundi selja 30% hlut sinn í Landsbankanum og fórna þar með því tækifæri að setja honum þá stefnu að vera samkeppnisbanki og leiðandi í því að bjóða bestu kjör og lága og góða vexti, ekki það að hann eigi að fara að tapa peningum heldur bara halda hinum bönkunum að samkeppninni, fengist sem sagt hugsanlega söluandvirði upp á 70–90 milljarða. Við getum ekki vitað það. Lækkun á skuldum um þá fjárhæð mundi lækka vaxtabyrði ríkissjóðs um 3–5 milljarða á ári. Það er miklu lægri tala en 20–30 milljarðar sem þjóðin fengi með hagkvæmari viðskiptakjörum í bönkunum almennt.

Hér á þingi hljótum við alltaf að reyna að taka bestu ákvörðun fyrir þjóðina almennt. Við getum ekki hugsað beint um ríkissjóð einan og sér. Hann er bara til fyrir þjóðina, fólkið í landinu. Það er ekkert sérstakt markmið út af fyrir sig að hann skuldi miklu minna ef það þýðir að kostnaður allra í landinu verði margfalt hærri fyrir vikið. Þetta frumvarp er tækifæri til að fá að ræða þessa hugmynd, það hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt að selja hlutinn í Landsbankanum eða setja hann á markað að einhverju leyti.

Ég fagna því í sjálfu sér að fá tækifæri til að ræða það og vona að þingmenn séu tilbúnir að velta fyrir sér þessari hugmynd sem var rædd á flokksþingi Framsóknarflokksins. Hún kemst vonandi hér á dagskrá í framhaldi af þessari umræðu.

Þó að langt sé liðið frá hruni og að endurreisn bankanna hafi á margan hátt gengið vel tel ég ótímabært að leggja Bankasýsluna niður og færa verkefnin inn í fjármálaráðuneytið. Ég held að það sé enn tilefni til að halda í þá þekkingu og þá starfsemi sem þar er. Það eru ekki bara hlutir í stóru bönkunum þremur sem Bankasýslan hefur haldið utan um, heldur líka eignarhlutir í sparisjóðunum. Ég tel að enn eigi eftir að finna framtíðarlausn á fyrirkomulagi þeirra, hvort hægt sé að koma þeim þannig fyrir að það verði búinn til einhvers konar sameiginlegur bakhjarl fyrir sparisjóðina. Ef til dæmis ríkissjóður tæki þá afstöðu að eiga Landsbankann til framtíðar og hann yrði banki sem mundi veita þjónustu á landsvísu mundi sparisjóðanetið nýtast mjög vel í því og það gæti verið ágætislausn að Landsbankinn yrði bakhjarl sparisjóðakerfisins og rekinn sem samfélagslegur banki, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um allt land til að efla byggðirnar. Þó að ég sé úr Reykjavíkurkjördæmi sé ég að sjálfsögðu kostina í því að það sé líka öflug fjármálaþjónusta á landsbyggðinni.

Að öllu þessu skoðuðu held ég að við ættum að nýta tækifærið til að skoða þessi mál alveg galopið. Ég tek í sjálfu sér eftir því að málinu er vísað til fjárlaganefndar en ekki til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem (Gripið fram í.) málið hefði fengið ágætisumfjöllun. Í staðinn kemur umsögn frá efnahags- og viðskiptanefnd til fjárlaganefndar ef óskað verður eftir því en ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni.