144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það var eitthvað hressilegra yfir þinginu í gær, fjöldi mála tekinn á dagskrá til afgreiðslu og sannarlega ánægjulegt að sjá áþreifanlegan afrakstur umræðna og nefndavinnu raungerast hér í góðri vinnu. Ég hef gjarnan rætt undir þessum lið, störf þingsins, um lífskjör og efnahagslega tengd málefni og ætla að gefnu tilefni að ræða um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar vegna nýútkominnar skýrslu sem var þaulyfirfarin hér af hinum ýmsu miðlum í gær. Meðal annars er á Eyjunni dregið fram úr þessari skýrslu að kjöraðstæður hafi verið í efnahagsmálum, lítil verðbólga hafi skapað hvata til sparnaðar og hjálpað til við að draga úr þensluáhrifum sem kemur til af aukinni ráðstöfunargetu heimilanna. Svo voru mjög ánægjulegar fréttir þessu tengt af hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs og horfur metnar stöðugar. Eitthvað er því verið að gera hér vel í ríkisfjármálum.

Það segir á öðrum stað í ágætisgrein á Eyjunni að launatekjur segi aðeins hluta sögunnar þegar lífskjör fólks eru skoðuð og að ráðstöfunartekjur gefi betri vísbendingu. Þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að sú mikla kaupmáttaraukning sem mörg íslensk heimili upplifðu á árunum fyrir bankahrunið hafi verið innstæðulítil bóluaukning breytir það ekki því að margir upplifa sig í verri stöðu fjárhagslega en fyrir hrun.

Ef ég dreg þetta saman, virðulegur forseti, og margar og ítarlegar og góðar fréttir af því sem tínt var til úr skýrslunni er vissulega ákveðin einföldun að segja að þetta séu einu forsendurnar og ástæður þess að ráðist var í að lækka skuldir heimilanna. Þó má fullyrða að ráðstöfunargeta heimilanna hafi sannarlega verið skert, m.a. vegna verri skuldastöðu.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Heimilin eru algjör grundvallareining í hagkerfinu og mér finnst oft heildarsamhengi hlutanna gleymast þegar talað er um þessa mikilvægu efnahagslegu aðgerð.